Flensborgarskólinn - Forsíða
Vorönn 2010

Fréttir 7. febrúar 2017
Stjörnufræði og Stjörnuver í Flensborg


Stjörnufræðin er sú vísindagrein sem um þessar mundir er í hvað hröðustum vexti og daglega berast upplýsingar um nýuppgötvuð smástirni, fjarhnetti og örlög sólstjarna. Í áfanganum STJÖ2SV05, Sólkerfi og Vetrarbrautir, hafa nemendur flutt að undanförnu fyrirlestra að eigin vali og sýnt glærur til að útskýra mál sitt. Sem dæmi má taka Sigurð sem flutti fyrirlestur um risasvartholið í miðju Vetrarbrautar okkar. Það er 4 milljón sinnum massameira en Sólin okkar og í 28 þúsund ljósára fjarlægð frá okkur. Hann var búinn að kynna sér að þó að útilokað sé að sjá svarthol, þar sem það hleypir engu ljósi frá sér, þá kemur það upp um tilvist sína með því að halda sýnilegum stjörnum á sporbraut í kring um sig.


Sigurður birti mynd af Vetarbrautinni eins og hún lítur út utan úr geimi og benti á miðju hennar þar sem svartholið SaggitariusA* er. Frá Jörðinni séð er svartholið í sömu stefnu og stjörnumerkið Bogmaðurinn.

Hjörleifur sagðist hafa verið heppinn að enginn valdi fyrirlestrarefnið Miklihvellur á undan honum því „Big Bang“, eins og atburðurinn var kallaður í hæðni, er besta útskýring á upphafi alheimsins sem til er. Kenningin segir að í punkti sem var minni en rafeind hafi fyrir 13 þúsund og 8 hundruð milljón árum orðið útþensla á meira en ljóshraða sem markaði upphaf tímans og rúmsins sem við nú lifum í.


Hjörleifur er orðinn sérfræðingur í Miklahvelli, því ekki einungis er þessi atburður ástæða þess að við erum til, heldur býður hann upp á vangaveltur um að aðrir Miklahvellir hafi átt sér stað sem sumir gætu hafa orðið upphaf að öðrum alheimum.

Með vaxandi áhuga á stjarnvísindum er við hæfi að á Vakningardögum verður Stjörnuverið, færanlegur geimhermir sem Snævarr stjörnurannsakandi á, reistur í Flensborg. Þekktasti stjörnufræðikennari landsins, Sævar Helgi, mun halda tvo fyrirlestra um sólkerfið okkar, stjörnumerki í Vetrarbrautinni og aðrar stjörnuþokur. Aðeins komast 25 manns á hvorn fyrirlestur svo það er vissara að skrá sig á listann um leið og hann verður gerður aðgengilegur.


Inni í stjörnuverinu stjórnar Sævar Helgi skjávarpa með 180° gleiðlinsu og varpar myndum innan á þak kúlunnar. Myndirnar hreyfast stundum svo hratt að áhorfendur sundlar.Snævarr á Stjörnuverið, kúlu sem verður blásin upp í stofu B202 á Vakningardögum og Viðar verður aðstoðarmaður við að reisa kúluna.Til baka . . .

Flensborgarskólinn | Hringbraut 10 | 220 Hafnarfirði | Sími 565 0400 | Fax 565 0491 | flensborg@flensborg.is