Flensborgarskólinn - Forsíða


Fréttir 29. mars 2017
Verkfræðinám kynnt í EÐLI-áföngum


Sigurður Ingi Erlingsson, prófessor við HR, kom í dag til okkar í eðlisfræðitíma og kynnti tveimur hópum verkfræðinámið í HR og spjallaði við nemendur Flensborgar um það sem þeir eru að læra um þessar mundir.

Siggi, eins og hann kýs að kalla sig, sér um eðlisfræðikennslu í HR og síðasta haust innrituðust 200 nýnemar í verkfræðinám við skólann. HR býður upp á 7 verkfræðilínur til BSc prófs sem hver hefur sína sérstöðu: Hátækniverkfræði (mecatronics), vélaverkfræði, rekstrarverkfræði, fjármálaverkfræði, heilbrigðisverkfræði og hugbúnaðarverkfræði. Að auki býður HR upp á MSc nám í raforkuverkfræði.


Siggi útskýrir hvernig hann byrjaði að skilja tímateygingu í afstæðiskenningunni með því að setja sig í spor muj-eindanna sem geimgeislar mynda í andrúmslofti Jarðar.

Í dótakassa Sigga var meðal annars gormur úr málmblöndu með „minni“ og þó gormurinn væri teygður þar til hann leit út fyrir að vera ónýtur, þá náði hann upprunalegu útliti um leið og hann kom í 40°C heitt vatn. Siggi gat látið segul dansa í lausu lofti yfir málmskífu eftir að hann hellti yfir hana fljótandi nitri við -196°C vegna þess að málmurinn var orðinn ofurleiðandi í kuldanum og bjó til gangstætt segulsvið og Siggi gat meira að segja látið segulinn snúast viðnámslaust viðnámslítið í loftinu.

Í áfanganum EÐLI3NE05 deildi hann með nemendum reynslu sinni af því að eiga í erfiðleikum með að skilja afstæðiskenninguna, en hann hafði farið að skilja tímateyginguna eftir að ímyndaði sér að hann sæti á muj-eind á næstum ljóshraða á leið niður með fjalli sem sýndist bara vera eins og hóll á þessum hraða. Í áfanganum EÐLI2HK05 útskýrði Siggi hvernig fasabreyting væri breyting á óreiðu efnisins og tengdi það við sérsvið sitt, skammtafræði, sem hann sagði að útskýrt hefði segulsvið sem áður var álitið að gæti ekki staðist.


Litli segullinn fór að svífa yfir málmskífunni eftir að hún hafði legið smástund í fljótandi nitri. Með því að ýta við seglinum snérist hann að því er virtist viðnámslítið vegna fyrirbæris sem kallast Meissner-hrif.

Aðalatriði heimsóknarinnar var þó að með henni fengu eðlisfræðinemendurnir sinn persónulega tengilið inn í HR og Siggi bauð þeim að senda sér fyrirspurn í sie@ru.is um hvaðeina sem þeim lægi á hjarta varðandi verkfræðinám á háskólastigi. Það mátti nú ekki minna vera þar sem Siggi varð stúdent af náttúrufræðibraut Flensborgar þó hann hefði byrjað á félagsfræðibraut.


Eðlisfræðinemendurnir fengu að stinga teygðum gorminum í heitt vatn og sjá hvernig hann öðlaðist sína fyrri lögun á svipstundu.

V.Á.Til baka . . .

Flensborgarskólinn | Hringbraut 10 | 220 Hafnarfirði | Sími 565 0400 | Fax 565 0491 | flensborg@flensborg.is