Flensborgarskólinn - Forsíða
Séð inn í Hamar, nýjan sal skólans 2006

Fréttir 25. maí 2017
Brautskráning og skólaslit


Brautskráning útskriftarnemenda fór fram í Hamarssal 24. maí 2017.


 

Að þessu sinni voru útskrifaðir 67 nemendur. Flestir nýstúdentar voru af félagsfræðibraut, alls 26, en þar á eftir fylgdi náttúrufræðibraut með 17 nemendur og viðskipta- og hagfræðibraut með átta nemendur. Fimm nemendur luku málabraut, fimm nemendur voru brautskráðir af starfsbraut, fjórir af opinni námsbraut og einn með viðbótarnám til stúdentsprófs. Alls voru 13 þessara nemenda á íþróttaafrekssviði við skólann.

Athöfnin hófst með annál Erlu Ragnarsdóttur aðstoðarskólameistara, sem fór yfir helstu viðburði ársins, m.a. Flensborgardaginn, þar sem málstofur og erindi voru haldin um þemað kynvitund og kynheilbrigði, Flensborgarhlaupið, sem haldið var í septemberlok, leiksýningu Leikfélagsins, Mormónabókina, sem sló í gegn, þó hlé hafi þurft að gera á sýningum ársins vegna lærbrots annars aðalleikarans, þátttöku í Gettu Betur, þar sem skólinn komst í sjónvarpið, og frækinn sigur skólans í Mælsku- og rökræðukeppni framhaldsskólanna, MORFÍS, í vor. Í skólanum var einnig haldin hæfileikakeppni starfsbrauta framhaldsskólanna, í mars og þótti lukkast mjög vel.
Kórinn söng skólasönginn eftir Örn Arnarson og Sigurð Ágústsson og Enginn grætur Íslending, eftir Hróðmar Inga Sigurbjörnsson og Jónas Hallgrímsson.
Skólameistari hélt því næst skólaslitaræðuna. Þar minntist Magnús m.a. á hvað samfélagshugsun á undir högg að sækja í einmenningstækjasamfélaginu, þar sem sjálfshyggja og félagsleg einangrun einkennir sífellt meir samfélagið. Við sjáum það m.a. á því að meiri áhersla er lögð á réttindi hvers og eins en minna fer fyrir skyldunum sem við berum til umhverfis okkar og öðrum manneskjum. Birtingarmynd þess sé m.a. hvernig samfélagið býr eldri borgurum landsins umhverfi og aðstæður. Einnig hvernig hagur barnafólks virðist fyrir borð borinn, og ungt fólk geti t.d. ekki komið sér upp þak yfir höfuðið. Einnig minntist hann á skyldur okkar gagnvart alþjóðasamfélaginu, bæði hvað varðar umhverfismál og flóttamannavandann. Magnús vék einnig að rekstrarmálum skólans. Rekstrarvandi hans byggir á því þjónustustigi sem skólinn heldur úti, með öflugri nemendaþjónustu, fjölbreyttu námsframboði, framsæknum kennslu- og námsaðferðum, en ekki síst vanfjármögnun skólans. Skólinn er í miðjum aðhaldsaðgerðum en mun reyna eftir fremsta megni að viðhalda þjónustustiginu og verja störf starfsmannanna.

Því næst voru skírteinin afhent, nemendur settu upp húfur sínar og allir sungu saman stúdentasönginn, Gaudeamus igitur.
Skiptinemar vetrarins, þau Ece Yerliyurt, Sofia Concorregi og Franco Napoleon Iglesias voru kvödd og fengu vitnisburð um skólagöngu sína. Þrír nýnemar fengu því næst viðurkenningu fyrir góðan námsárangur á fyrsta ári. Það voru þau Magnús Fannar Magnússon og tvíburasysturnar Steinunn Bára og Birgitta Þóra Birgisdætur.

Tveir starfsmenn skólans hætta störfum nú í vor vegna aldurs. Það eru þau Guðný Kristmundsdóttir og Magnús Gíslason. Þeim var færður blómvöndur og þakklætisvottur fyrir sín störf hjá skólanum, þar sem þau höfðu bæði unnið í áratugi.
Fjórir kennarar voru heiðraðir með bronsmerki skólans fyrir tíu ára starf. Það eru þau Ásrún Óladóttir, Guðmundur Garðar Brynjólfsson og Snædís Baldursdóttir.

Næst var komið að verðlaunaafhendingu útskriftarnemenda.
Fyrstur kom Sigurður Björgvinsson, frá Rótarýklúbbi Hafnarfjarðar og afhenti dúx skólans, Ingibjörgu Rún Óladóttur verðlaun fyrir hönd samtakanna. Ingibjörg hlaut meðaleinkunnina 9,4.
Ingibjörg hlaut einnig verðlaun frá skólanum og Rio Tinto Alcan fyrir framúrskarandi námsárangur í raungreinum, stærðfræði, íslensku og íþróttir.
Ingi Þór Sigurðsson var semidúx með meðaleinkunnina 9,3. Hann fékk verðlaun frá Háskólanum í Reykjavík fyrir almennt góðan árangur og frá skólanum fyrir góðan árangur í ensku. Hann fékk einnig verðlaun frá Íslenska stærðfræðifélaginu fyrir ágætan árangur í stærðfræði.
Hanna Lind Rosenkjær Sigurjónsdóttir fékk viðurkenningu frá skólanum fyrir Gettu-betur þátttöku og störf sín í þágu nemenda í nemendafélaginu.
Magni Marelsson fékk viðurkenningu fyrir mjög góðan árangur í félagsgreinum, Eyrún Björg Guðjónsdóttir fyrir spænsku, Natalia Cecylia Wojdat fyrir almennt góðan árangur í tungumálum, þ.e. þýsku, ensku og spænsku. Kristinn Snær Guðmundsson, fráfarandi oddviti fékk oddvitamerkið og viðurkenningu fyrir störf í þágu nemenda og þátttöku í sigri skólans í Morfís í vor. Loks fékk Pétur Hrafn Friðriksson viðurkenningu fyrir þátttöku í Gettu betur í vetur.
Bestum árangri á stúdentsprófi að þessu sinni náði Ingibjörg Rún Óladóttir, með einkunnina 9,4. Ingibjörg Rún útskrifaðist af náttúrufræðibraut og íþróttaafrekssviði og æfir hún knattspyrnu með FH. Ingibjörg Rún fékk m.a. verðlaun fyrir góðan árangur í raungreinum á stúdentsprófi, í ensku, spænsku og íslensku auk námsstyrks frá Rio Tinto á Íslandi.

Félagar úr leikfélagi skólans stigu á stokk og sungu og léku upphafsatriði úr Mormónabókinni. Tekið skal fram að sýningum á henni verður framhaldið í haust, þegar Sindri Blær, annar aðalleikarinn hefur jafnað sig á meiðslunum sem hann varð fyrir í bílslysi í vor.

Aron Elí Helgason, nýstúdent, hélt ræðu fyrir hönd þeirra. Þar fjallaði hann um lífið í skólanum, skóregluna, sem hann upplifði á fyrri hluta námstíma síns, rifjaði upp atvik úr kennslustofunum og tilkynnti að lokum að hópurinn hefði styrkt Barnaspítala Hringsins um fjárhæð í nafni skólans.

Kórinn söng Maístjörnuna eftir Jón Ásgeirsson og Halldór Laxness. Skólameistari réði því næst útskriftarnemendum heilt og sleit loks skólanum.

Athöfnin endaði á því að kórinn söng þjóðsönginn, eftir Sveinbjörn Sveinbjörnsson og Matthías Jochumsson, við undirtekt allra viðstaddra.

Starfsfólk Flensborgarskólans óskar útskriftarnemendum til hamingju með áfangann og óskar þeim velfarnaðar í framtíðinni.

 Til baka . . .

Flensborgarskólinn | Hringbraut 10 | 220 Hafnarfirði | Sími 565 0400 | Fax 565 0491 | flensborg@flensborg.is