Skorað á NFF - Kolefnisjöfnum akstur

Skorað á NFF - Kolefnisjöfnum akstur

Stjórnendur Flensborgarskólans hafa skorað á nemendafélagið að kolefnisjafna akstur nemenda til og frá skóla. Skemmst er frá því að segja að NFF tók áskoruninni og skrifaði oddvitinn, Ásbjörn Ingi Ingvarsson, undir fyrir hönd félagsins í morgun.

Að sögn Erlu Ragnarsdóttur, skólameistara,  er skólinn að móta stefnu sína í umhverfis og loftslagsmálum. „Eitt af því sem við viljum gera er að kolefnisjafna samgöngur stofnunarinnar, sem snúa bæði að nemendum og starfsfólki. Okkur finnst því tilvalið að skora á nemendafélagið að leggja sitt af mörkum og styrkja að þessu sinni votlendissjóð. Það var afar ánægjulegt að sjá hversu hratt og vel NFF tók áskoruninni og vonandi gera aðrir skólar slíkt hið sama.” Skólinn hyggst svo kolefnisjafna til móts við NFF og nemendur með því að efla samstarf skólans við GFF - samtök gróðurs fyrir fólk í landnámi Ingólfs og styrkja Skógrækt Hafnarfjarðar. 

Áskorunin er svohljóðandi:

Í tengslum við nýja umhverfis- og loftslagsstefnu skólans sem unnin er í tengslum við Græn skref í ríkisrekstri vilja stjórnendur skora á nemendafélag Flensborgarskólans að kolefnisjafna akstur nemenda til og frá skóla.

Kolefnisjöfnun á einkabifreið er um 5.000 krónur á ári miðað við smábíl. 
Við skorum á NFF að mæta þessum kostnaði með fjárframlagi fyrir hvern nemanda skólans.

Útfærslan er alfarið í höndum NFF en ætlast er til þess að stjórnin afhendi Votlendissjóði Íslands 69.420 krónur fyrir skólaárið 2020-2021 sem lágmarks mótframlag til kolefnisjöfnunnar.
Votlendissjóður sér svo um að verja peningunum í að endurheimta votlendi og vinna gegn losun gróðurhúsalofttegunda.

Með því að taka áskoruninni eru nemendur Flensborgarskólans að sýna samfélagslega ábyrgð í verki, fylgja stefnu skólans í umhverfis- og loftslagsmálum og styðja þannig jafnframt við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir í loftslagsmálum.