2. sætið í MORFÍS er staðreynd

2. sætið í MORFÍS er staðreynd

Eins og frægt er orðið keppti Flensborgarskólinn til úrslita í MORFÍS, mælsku- og rökræðukeppni framhaldsskólanna, gegn Verzlunarskóla Íslands þann 16. júní sl. Umræðuefnið í þetta skiptið var ,,Ísland er spillt land" og nemendur Flensborgar voru meðmælendur.

Keppnin var hörð en nokkuð jöfn en Verzló bar sigur úr býtum að lokum. Kolbrún María Einarsdóttir, Flensborgari, fékk flest stig hjá dómnefndinni og hlaut hinn eftirsóknarverða titil Ræðumaður Íslands.

Lið Flensborgar var að þessu sinni skipað þeim Kolbrúnu Maríu Einarsdóttur, Birki Ólafssyni, Unu Rán Tjörvadóttur og Inga Snæ Karlssyni.

Áhugi á rökræðulistinni hefur farið vaxandi innan skólans síðastliðin ár og nemendur hafa teflt fram öflugu liði ár eftir ár. Skólinn færir þessum nemendum bestu þakkir fyrir dugnað og eljusemi í þágu mælskulistarinnar.