FRAN1DA05

FRAN 1DA05 - Daglegar athafnir, 2. áfangi í frönsku

Viðfangsefni: Tjáning, hlustun, orðaforði, lesskilningur
Lýsing: Í áfanganum verður byggt ofan á þann grunn sem lagður var í byrjunaráfanganum. Áhersla er lögð á að þjálfa áfram alla málfærniþætti: munnlega og skriflega tjáningu, hlustun og lesskilning. Unnið er með orðaforða sem tengist nánasta umhverfi nemandans og daglegum athöfnum svo sem tímasetningum, kurteisisvenjum, atvinnu, tómstundum, matarvenjum, innkaupum og hátíðum. Þá eru nemendur einnig þjálfaðir í að segja frá liðnum atburðum og endurminningum. Upplýsingum um menningu og staðhætti frönskumælandi  landa er fléttað inn í kennsluna m.a. í gegnum lestur viðeigandi texta sem varpa ljósi á daglegt líf og með myndefni eða tónlistarefni.
Forkröfur: FRAN 1EL05
 
Þekkingarviðmið: Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
 • orðaforða, sem tengist nánasta umhverfi og daglegum athöfnum
 • helstu grundvallarþáttum franska málkerfisins og fest í sessi kunnáttu fyrri áfanga
 • einföldum samskiptum og tjáningu í mæltu og rituðu máli
 • framburðarreglum og hafi náð betra valdi á  hljómfalli málsins
 • Frakklandi og frönskum málsvæðum, ásamt einstökum þáttum franskrar menningar
 
Leikniviðmið: Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
 • skilja talaða frönsku um efni, sem tengist ýmsum daglegum aðstæðum og athöfnum og inniheldur orðaforða sem hann hefur kynnst    
 • skilja einfalda texta í nútíð og núliðinni tíð
 • taka þátt í stuttum samtölum um efni, sem tengjast daglegu lífi og tómstundum
 • segja á einfaldan og skýran hátt frá persónulegum högum, áhugamálum og liðnum atburðum
 • skrifa ýmsar gerðir texta í nútíð og núliðinni tíð um efni, sem hann þekkir vel
 • nýta sér ýmis hjálpargögn, svo sem orðabækur og Netið
 • tjá sig munnlega og skriflega um liðna atburði
 
Hæfniviðmið: Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
 • ráða við kringumstæður sem tengjast efni áfangans
 • skiptast á skoðunum um algeng málefni
 • fjalla í ræðu og riti um helstu atriði sem snerta daglegt líf og skoðanir
 • bjarga sér á frönsku við algengar kringumstæður á heimilinu, í verslunum, á veitingastöðum og kaffihúsum
 • bjarga sér sem ferðamaður í frönskumælandi umhverfi, svo sem að leita upplýsinga um brottfarartíma, kaupa sér lestarmiða, tala um ferðamáta
 • leysa viðfangsefni einn eða í samstarfi við aðra og með viðeigandi hjálparmiðlum
 • sýna aga, metnað, sjálfstæð vinnubrögð, jákvæðni og trú á eigin getu í frönskunáminu
 • vera óhræddur við að nýta sér kunnáttu sína í frönsku í almennum samskiptum