FÉLA3MM05

FÉLA 3MM05 - Margbreytileiki og minnihlutahópar

Viðfangsefni: margbreytileiki og minnihlutahópar
Lýsing: nemendur fá kynningu á þeim kenningum og rannsóknum sem viðkoma hinum ýmsu minnihlutahópum, eins og fötlunarfræði, hinseginfræðum o.fl. Nemendur kynnast réttindabaráttu ýmissa minnihlutahópa á ólíkum tímabilum og löndum. Fjallað verður um líf, reynslu og aðstæður fólks sem tilheyrir minnihlutahópum. Einnig verður fjallað um þá ímynd af minnihlutahópum sem birtist í fjölmiðlum og almennri orðræðu. Áhersla er lögð á að nemendur auki skilning sinn á því hvernig það er að tilheyra minnihlutahópi í íslensku samfélagi.
Forkröfur: FÉLA1IH05 og ÍSLE2BM05
 
Þekkingarviðmið: Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
 • þeirri sögulegu þróun sem orðið hefur í málefnum ýmissa minnihlutahópa, eins og samkynhneigðra, fólks með fötlun, fólks af ýmsum kynþáttum, trúarbrögðum og þjóðarbrotum
 • aðstæðum og reynslu fólks í minnihlutahópum, s.s. daglegt líf, fjölskyldulíf, menntun og atvinnu
 • hvernig ímynd og hlutverk minnihlutahópa hefur komið fram í fjölmiðlum og almennri orðræðu
 • fræðilegum hugmyndum, rannsóknum og kenningum um fötlun, kynhneigð og aðrar minnihlutastöður
 
Leikniviðmið: Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
 • greina hvaða áhrif hugmyndir og kenningar hafa á aðstæður fólks í minnihlutahópum
 • taka fræðilega afstöðu til samfélagslegra álitamála sem tengjast minnihlutastöðu
 • beita hugtökum á mismunandi viðfangsefni sem tengjast minnihlutahópum
 
Hæfniviðmið: Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
 • leita sjálfstætt eftir upplýsingum um málefni tengd minnihlutahópum
 • setja fram þekkingu sína í ræðu og riti
 • meta eigið vinnuframlag sem og annarra
 • greina þá orðræðu sem er til staðar í þeirra umhverfi