SÁLF2JS05

SÁLF 2JS05 - Jákvæð sálfræði og núvitund 

Viðfangsefni: Styrkleikar, hamingja, velferð, jákvæðar tilfinningar og hugsanir, sjálfsvinsemd, bjartsýni, samskipti og tilgangur.
Lýsing: Í áfanganum er fjallað um aðferðir jákvæðrar sálfræði og núvitundar. Nemendur kynnast jákvæðri sálfræði sem fræðigrein og hvernig þeir geta nýtt aðferðir hennar og bjargráð í daglegu lífi, sér til aukinnar vellíðunnar. Nemendur kynnast uppruna jákvæðrar sálfræði, helstu hugtökum og viðfangsefnum hennar sem eru meðal annars styrkleikar, hamingja, velferð, jákvæðar tilfinningar, sjálfsvinsemd, bjartsýni og tilgangur.
Megin áhersla er lögð á hagnýtar aðferðir og að nemendur taki virkan þátt í æfingum og verkefnum sem bæta líðan, sjálfsmynd og velferð þeirra.
Nemendur vinna meðal annars að auknum jákvæðum tilfinningum, greina og efla styrkleika sína, setja sér raunhæf persónuleg markmið, vinna að bættum samskiptum og gera tilraunir með eigin tilfinningar og líðan.
Þá byggist stór hluti námskeiðsins á að kynnast og iðka núvitund og tileinka sér hana í daglegu lífi en núvitund er talin efla athygli og einbeitingu, bæta líðan, auka hugarró og jafnvægi svo eitthvað sé nefnt.
Forkröfur: Engar
 
Þekkingarviðmið: Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
 • helstu viðfangsefnum og hugtökum jákvæðrar sálfræði
 • uppruna jákvæðrar sálfræði og núvitundar
 • helstu tilfinningum sínum og annarra 
 • eigin skýringarstíl og þekkja leiðir til að efla bjartsýnan hugsunarhátt
 • meginstyrkleikum sínum
 • hvað eflir jákvæð samskipti og skilji vægi samkenndar og sjálfsvinsemdar í því samhengi
 • merkingu og tilgangi eigin lífs
 • grunnhugmyndum núvitundarhugleiðslu
 
Leikniviðmið: Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
 • skilja eigin tilfinningar og hamingju með sjálfstæðum og gagnrýnum hætti
 • taka ábyrgð á eigin hugsunum gagnvart sjálfum sér
 • efla bjartsýnan hugsunarhátt í raunverulegum aðstæðum daglegs lífs
 • eiga í jákvæðum samskiptum við sjálfan sig og aðra
 • skoða merkingu og tilgang í eigin lífi
 • iðka helstu tegundir núvitundarhugleiðslu í daglegu lífi
 
Hæfniviðmið: Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
 • geta skilgreint eigin hamingju
 • beita réttum bjargráðum til að bregðast við mótlæti og sárum tilfinningum í daglegu lífi
 • leggja til úrræði til að auka vellíðan sína
 • geta stundað núvitund í daglegu lífi
 • geta nýtt sér meginstyrkleika sína í daglegu lífi
 • búa yfir hæfni í jákvæðum samskiptum
 • búa yfir hæfni til að skilja forsendur hamingju og velferðar og tengt við daglegt líf sitt