FERÐ2FÞ05

FERÐ 2FÞ05 - Ferðamannastaðir og þjónusta 

Viðfangsefni: Ferðamannastaðir, ferðamöguleikar, ferðaþjónusta, handbækur
Lýsing: Kynntir eru helstu ferðamannastaðir Íslands. Landinu er skipt í 6 meginsvæði:  Höfuðborgarsvæðið, Vesturland, Norðurland, Austurland, Suðurland og hálendið. Skoðaðir eru ferðamöguleikar, framboð afþreyingar, helstu einkenni þjóðlífs og náttúru landsins. Menningartengd ferðaþjónusta er skoðuð á hverjum stað fyrir sig um leið og landið er skoðað sem ferðamannaland. Farið er yfir helstu atriði náttúruverndar og skoðað hvernig nýting lands og ýmis afþreying í ferðaþjónustu getur farið saman. Kynntar helstu handbækur og upplýsingamiðlar um land og þjóð. Staðhættir skoðaðir. Nemendur vinna raunhæf verkefni í tengslum við námsefnið.
Fræðileg umfjöllun greinarinnar verður tengd við reynslu nemenda af því að ferðast og heimsækja ferðamannastaði og þannig leitast við að skapa áhuga og skilning á mikilvægi ferðamennsku í daglegu lífi, í efnahagslegu tilliti greinarinnar á landsvísu og fyrir einstakar byggðir. Markmið áfangans er að hjálpa nemendum að öðlast yfirsýn og þekkingu á helstu þáttum ferðamennsku, mikilvægi náttúruferðamennsku fyrir Ísland og þeim áhrifum og afleiðingum sem ferðamennskan hefur á náttúru og samfélag á ferðamannastöðum.
Forkröfur: engar
 
Þekkingarviðmið: Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á: 
 • hvar helst eigi að leita upplýsinga um land og þjóð
 • staðháttum ýmissa staða á Íslandi
 • einkenni ferðamannastaða með tilliti til afþreyingar og annarra þátta
 • vegakerfi og ferðamöguleikum, hvort heldur sem er í byggð eða óbyggðum
 • lögum um náttúruvernd við skipulagningu ferða um Ísland
 • aðstæðum og afstöðu heimamanna og hvernig hún þróast með tímanum
 • helstu tegundum ferðamennsku, ekki síst visthæfri ferðamennsku
 • ferðaþjónustu á Íslandi
 
Leikniviðmið: Nemandi skal hafa öðlast leikni í að: 
 • kynna sér tiltekið efni svo sem ferðamöguleika og framboð og taka afstöðu til þess 
 • nota viðeigandi hjálpargögn við gerð og frágang verkefna 
 • afla upplýsinga um afþreyingu á tilteknum svæðum afla sér upplýsinga um ferðamennsku og útivist á Íslandi og tengja hugtök og kenningar við þann raunveruleika sem ferðamannastaðurinn Ísland býður upp á
 • tengja saman eigin reynslu og fræðilega umfjöllun um ferðamennsku
 • setja saman einfalda en raunhæfa ferðaáætlun fyrir mismunandi hópa
 • vinna úr upplýsingum einn eða í hópi, kynna niðurstöður og taka þátt í rökræðum
 
Hæfniviðmið: Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
 • vinna á sjálfstæðan, agaðan og virkan hátt að gagnaöflun og úrvinnslu 
 • leggja sjálfstætt mat á upplýsingar og geta fengið hnitmiðaðar niðurstöður í framhaldinu 
 • geta á markvissan hátt kynnt viðfangsefni fyrir öðrum með fjölbreyttum aðferðum og tekið þátt í rökræðu um þau 
 • gera sér grein fyrir helstu forsendum íslenskrar ferðaþjónustu og hvað gerir hana sérstaka 
 • leggja einfalt mat á einstök verkefni í ferðaþjónustu 
 • álykta með markvissum hætti um möguleika til ferðaþjónustu eftir ólíkum svæðum á Íslandi 
 • fjalla um kosti og galla ferðamennsku og ferðaþjónustu fyrir stór og lítil samfélög, náttúrufar þeirra og menningu