Fræðslusjóður

Fræðslusjóður Jóns Þórarinssonar

Fræðslusjóður Jóns Þórarinssonar hefur það hlutverk að styrkja til framhaldsnáms nemendur sem hafa lokið stúdentsprófi eða öðru lokaprófi frá Flensborgarskólanum í Hafnarfirði. Fræðslusjóðurinn var stofnaður með erfðaskrá Önnu Jónsdóttur ljósmyndara í Hafnarfirði, sem lést 4. júlí 1987. Anna var dóttir Jóns Þórarinssonar skólastjóra og fyrri konu hans Lauru Pétursdóttur Hafstein. Jón var skólastjóri Flensborgarskólans frá upphafi hans sem gagnfræðaskóla 1882 til 1908, en tók þá við nýstofnuðu embætti fræðslumálastjóra sem hann gegndi til dauðadags 12. júní 1926. Anna Jónsdóttir fæddist 16. desember 1892. Hún lærði ljósmyndaiðn og starfaði lengi við iðngrein sína í Hafnarfirði. Hún sýndi Flensborgarskólanum alla tíð mikla ræktarsemi og fylgdist af áhuga með starfsemi hans. Hún var ógift og barnlaus og ákvað löngu fyrir andlát sitt að láta skólann og nemendur hans njóta góðs af því sem hún kynni að láta eftir sig. Í erfðaskrá hennar var ákvæði um að eigur hennar skyldu mynda sjóð er bæri nafn Jóns Þórarinssonar og væri varið "til að styrkja til framhaldsnáms efnilegt námsfólk sem lokið hefur fullnaðarprófi við Flensborgarskólann í Hafnarfirði".

Fyrsta úthlutun úr sjóðnum fór fram á hundraðasta fæðingardegi Önnu, 16. desember 1992, en síðan hefur úthlutunin farið fram við brautskráningu fyrir jól. Skólanefnd Flensborgarskólans er jafnframt stjórn Fræðslusjóðsins. Umsóknir verða teknar fyrir og afgreiddar á fundi stjórnarinnar í byrjun desember. Sjóðsstjórnin getur skipt styrknum ef svo ber undir.

Umsóknir og úthlutun

Tekið er við umsóknum um styrk úr Fræðslusjóði Jóns Þórarinssonar. 

Rafrænar umsóknir (æskilegast) berist í tölvupóstnetfangið maggi@flensborg.is, eigi síðar en kl. 23.00, 5. desember 2019. Ef umsókn er send í venjulegum pósti miðast dagsetning við póststimpil (05.12.2019). Áritun á umslag á þá að vera:


Fræðslusjóður Jóns Þórarinssonar
Flensborgarskólinn í Hafnarfirði,
Pósthólf 240,
222 Hafnarfjörður.

Einnig má afhenda umsókn á skrifstofu skólans, Hringbraut 10, 220 Hafnarfjörður, eigi síðar en kl. 15:30 5.12.2019.

Umsóknum þarf ekki að skila á sérstöku eyðublaði, en þeim þurfa að fylgja staðfest gögn um námsferil eftir að námi í Flensborgarskólanum lauk auk annarra upplýsinga sem umsækjendur telja að styðji þeirra umsókn. 

Nánari upplýsingar gefur skólameistari í síma 565-0400 eða ef spurningar eru sendar til maggi@flensborg.is