Reglur og stefnur

Almennar reglur

 1. Nemendur, kennarar og aðrir starfsmenn eiga að mæta stundvíslega til starfa. 
 2. Nemendur og starfsmenn skulu sýna hver öðrum kurteisi og tillitssemi. Kennari er verkstjóri í kennslustund. Það þýðir að fyrirmælum hans ber að hlýða svo að allir þeir sem tímann sækja, geti fengið að njóta kennslunnar í friði. 
 3. Öll meðferð og neysla áfengis, tóbaks og annarra vímuvaldandi efna er bönnuð í húsnæði, á lóð skólans og á vettvangi skólastarfsins. Sama gildir um notkun rafrettna. Þær eru með öllu óheimilar í skólanum. 
 4. Nemendum og kennurum ber að skila kennslustofum snyrtilegum í lok kennslustundar. 
 5. Nemendum og starfsmönnum ber að ganga snyrtilega um húsnæði og lóð skólans og fara vel með húsmuni og tækjabúnað.
 6. Nemendur skulu fara eftir þeim reglum sem hver kennari setur um notkun farsíma og annarra tækja í kennslustundum.
 7. Nemendur bera sjálfir ábyrgð á að kynna sér reglur og starfsáætlanir skólans og kynna sér þær leiðir og möguleika sem þeir hafa til að koma málum sínum á framfæri. 
 8. Nemendur skulu fylgjast reglulega með tilkynningum á Námsneti, vef skólans, auglýsingaskjá og tölvupósti. 
 9. Öllum alvarlegri málum, svo sem sölu, milligöngu eða dreifingu áfengis og ólöglegra fíkniefna er umsvifalaust vísað til lögreglu. Skólaráð ákveður hvort nemanda skuli vísað úr skóla á meðan rannsókn fer fram.

Ef nemandi er staðinn að broti á ofangreindum reglum eru upplýsingar þar um færðar inn í athugasemdir í INNU. Ef viðkomandi nemandi brýtur reglur á sama hátt öðru sinni fær hann boðun um að ræða við stjórnendur sem veita honum tiltal. Foreldrar nemenda undir 18 ára eru upplýstir um málið. Ef um frekari brot verður að ræða kemur brottvikning til athugunar.

Skólasóknarreglur

Markmið 
Á öllum vinnustöðum eru í gildi ákveðnar reglur um viðveru. 
Sama á við í Flensborgarskólanum. Til þess að ná árangri í námi þarf að stunda námið af kostgæfni og sækja allar kennslustundir eins vel og kostur er.

Skólasókn

 1. Nemendur mæta stundvíslega í allar kennslustundir og próf.
 2. Það telst seinkoma ef nemandi er ekki mættur þegar kennari er búinn að lesa upp.  Fjarvist (F) úr einni kennslustund gildir sem eitt fjarvistarstig, seinkoma gildir hálft fjarvistarstig. 
 3. Nemendur bera ábyrgð á eigin mætingu. Þeir geta fylgst með stöðu sinni í Innu og eiga að þekkja þær reglur sem gilda um skólasókn. Ef nemendur vilja gera athugasemdir við fjarvistaskráninguna þá koma þeir athugasemdum innan viku til viðkomandi kennara
 4. Nemendur eiga að sinna öllum persónulegum erindum sínum utan skólatíma. Sé það ekki unnt og erindið brýnt er nemendum bent á að biðja um leyfi hjá aðstoðarskólameistara. Hann sér um leyfisumsóknir. 

Veikindi

 1. Veikindaforföll skal tilkynna rafrænt í Innu samdægurs (myndskeið til leiðbeiningar). Rafrænar tilkynningar frá foreldrum teljast fullnægjandi og frekari staðfesting er óþörf. Ef nemandi tilkynnir sjálfur veikindi getur foreldri staðfest þau á þar til gerðu eyðublaði eða þau staðfest af lækni.
 2. Ef nemandi gerir grein fyrir öllum veikindaforföllum í samræmi við 7. - 12. grein hér að ofan þá tryggja vottorð að hann fái ekki lægri einkunn en 8 fyrir skólasókn.  


Leyfi

 1.  Hægt er að sækja um leyfi, gegn skriflegum vottorðum, vegna eftirfarandi:
   
 • - Æfingar/leitir á vegum björgunarsveita  
 • - Fjarvera vegna dauðsfalla í nánustu fjölskyldu  
 • - Ferðir/æfingar á vegum landsliða í íþróttum  
 • - Námskeið/námsferðir t.d. á vegum skiptinemasamtaka 
 • - Fjölskylduferðir (af sérstöku tilefni). 
 • - Tekið skal fram að ekki eru veitt leyfi vegna skemmtiferða.

Nemendum eru ekki reiknaðar fjarvistir vegna viðurkenndra ferða á vegum skólans.

Kennarar veita ekki leyfi. Öll leyfi eða vottorð eru færð af skrifstofu eða aðstoðarskólameistara.

Undanþágur frá mætingareinkunn

 1. Nemendur með barn á fyrsta ári geta sótt um undanþágu frá mætingareinkunn.  
 2. Nemendur, sem eiga við sjúkdóma að stríða eða búa við aðstæður sem geta haft áhrif á skólasókn þeirra, leggja fram viðeigandi gögn hjá námsráðgjafa eða kennsluráðgjafa við upphaf annar. Skólinn gætir réttar langveikra nemenda og hefur námsráðgjafi milligöngu í slíkum málum af hálfu skólans. Stöðu þeirra þarf að meta með hliðsjón af skólasókn og námsárangri. 
 3. Vera kann að heilsa og aðstæður leyfi það ekki að nemandi sé í fullu námi. Þegar nemandi er mikið fjarverandi vegna veikinda áskilur skólinn sér rétt til meta hvort hægt sé að heimila fullt nám, skert nám eða hvort viðkomandi nemandi taki sér tímabundið eða varanlegt leyfi frá námi við Flensborgarskólann.


Einkunnir fyrir skólasókn

Einkunn er gefin fyrir skólasókn og birtist hún í námsferli nemenda og á útskriftarskírteini. Skólasóknareinkunn er reiknuð á eftirfarandi hátt: 


Skólasókn Skólasóknareinkunn
98% - 100% 10
95% - 97% 9
92% - 94% 8
88% - 91% 7
83% - 87% 6
82% og undir Fall - 4

Óviðunandi skólasókn 

 1. Skólasókn nemenda er skoðuð samhliða miðannarmati. Nemendur með mætingaprósentu undir 83% fá formlega áminningu. Ef nemandi bætir ekki mætingu sína á hann ekki áframhaldandi skólavist vísa.  
 2. Nemandi sem fellur á skólasókn lendir ávallt á biðlista og á ekki öruggt sæti í skólanum næstu önn. 

Annað

 • Þrisvar á önn eru fjarvistayfirlit send heim til foreldra/forráðamanna nemenda yngri en 18 ára. Tvisvar til þeirra sem eldri eru. 
 • Nemendur og kennarar geta skotið vafaatriðum til úrskurðar skólameistara. 

Reglur um framkvæmd prófa

Í Flensborgarskólanum gilda eftirfarandi reglur um framkvæmd lokaprófa:

 1. Nemendur skulu koma stundvíslega til prófs. Þeir skulu áður hafa kynnt sér á auglýsingatöflu skólans hvar þeim er ætlaður staður í prófinu. 
 2. Nemendur mæta með skilríki sem þeir láta liggja á borðinu meðan á prófi stendur. Gild skilríki eru skólaskírteini, vegabréf, ökuskírteini og greiðslukort með mynd.
 3. Nemendur koma eingöngu með skriffæri í próf og það sem sérstaklega er heimilað í viðkomandi prófi. 
 4. Nemendum er óheimilt að aðstoða aðra eða þiggja aðstoð frá öðrum í prófi. Brot á þessari reglu veldur tafarlausri brottvísun úr prófi og telst nemandi fallinn á því. Skólameistari ákvarðar um frekari viðurlög. 
 5. Próftími er afmarkaður, og ákveðinn hverju sinni. Nemandi hefur leyfi til að koma allt að 15 mín. of seint í próf, síðan er stofunni lokað. Viðkomandi fær ekki framlengdan tíma heldur skerðist próftími hans sem seinkomunni nemur. Ekki er heimilt að skila úrlausnum fyrr en 30 mínútur eru  liðnar frá upphafi prófsins. 
 6. Nemandi, sem ekki getur komið í próf vegna veikinda, skal tilkynna forföll í síðasta lagi kl. 12:00 á hádegi á prófdegi. Nánari upplýsingar eru í kaflanum um frestun prófa.
 7. Einkunnir finna nemendur og forráðamenn í INNU frá og með auglýstum einkunnabirtingartíma. Kennurum er óheimilt að gefa upp einkunnir fyrr þótt eftir því sé leitað. 
 8. Sé þess óskað er hægt að fresta prófi og taka það sem sjúkrapróf. Það er tilkynnt fyrir kl. 12:00 daginn sem aðalprófið er haldið. Fyrir þessa þjónustu skal greiða sérstaklega og skal gjaldið greitt áður en sjúkraprófið hefst. Reglur um þetta eru auglýstar með góðum fyrirvara.

Reglur um frestun prófa:

ATH allar veikindatilkynningar þurfa að berast til skrifstofu fyrir kl. 12:00 þann dag sem aðalprófið er í síma 565 0400 eða með tölvupósti á netfangið skrifstofa@flensborg.is. Best er að biðja um staðfestingu á póstinum til að tryggja að tilkynningin hafi borist.
Nemendur sem fresta prófi og tilkynna það fyrir auglýsta dagsetningu greiða kr. 2.000.- við skráningu.
Eftir að sá auglýsti dagur er liðinn er gjaldið kr. 3.000.- og greiðist við skráningu. 
Ef greitt er daginn sem prófið er haldið er gjaldið kr. 5.000.-
Ath. skráning er aldrei gild nema gjaldið hafi verið greitt.
Nemendur sem eru veikir á prófdegi geta skilað læknisvottorði og greiða ekki fyrir forfallaprófið.
Greiðslupplýsingar má fá hjá skrifstofu skólans eða gegnum netfangið skrifstofa@flensborg.is .

Nemendur, sem eiga samkvæmt próftöflu að taka:

 • þrjú próf á sama degi, 
 • tvö próf á sama tíma, 
 • tvö próf, sitt á hvorum próftímanum, tvo daga í röð,

geta fengið einu eða öðru prófinu frestað án gjalds og taka þá forfallapróf í þeim. Umsóknir um að fresta prófi af þessum sökum skulu hafa borist til aðstoðarskólameistara skv. fresti sem auglýstur er sérstaklega hverju sinni.

Prófsýning

Þegar lokaeinkunnir hafa verið birtar í lok annar er haldin prófsýning samkvæmt nánari auglýsingu þar sem nemendum gefst kostur á að skoða prófúrlausnir sínar og fá skýringar á námsmati hjá kennara. Prófsýning fer allajafna fram sama dag og einkunnir eru birtar.

Ef fram kemur skekkja í mati eða einkunnargjöf skal slíkt leiðrétt svo fljótt sem verða má og birt nemanda. Það gerist þannig að kennari sendir áfangastjóra leiðréttingu sem færð er tafarlaust í Innu.

Prófúrlausnir lokaprófa eru varðveittar í eitt ár eftir að áfanga lýkur. Síðan er þeim eytt. Eftir þann tíma verður einkunn ekki breytt nema með endurtöku prófsins.

Einkunnir símatsáfanga eða verkefna, þar sem úrlausnum hefur verið skilað í hendur nemenda, standa að lokinni prófsýningu. Verkefni, sem nemandi hefur tekið og farið með, eru ekki nothæf í kærumálum.

Nemandi, sem stefnir að útskrift og er með fall í grein sem stendur í vegi fyrir að hann geti útskrifast, getur fengið að endurtaka það próf. Ekki er hægt að fá endurtökupróf í grein þar sem einkunn er fimm eða hærri.

Nemandi getur látið falleinkunn standa í lokaáfanga áfangakeðju ef hann á umframeiningar sem því nemur. Hægt er að láta einkunn (eins - tveggja - þriggja) áfanga standa ef einingasafnið leyfir.