Sagan - eldri vefur

Ágrip af sögu Flensborgarskólans
 
Flensborgarskólinn er með elstu starfandi skólum á Íslandi og hefur tekið margvíslegum breytingum á langri ævi. Hann var upphaflega stofnaður sem barnaskóli árið 1877 en var breytt í "alþýðu- og gagnfræðaskóla" fimm árum síðar, árið 1882, og við það ártal hefur aldur skólans oftast verið miðaður.
 
Séra Þórarinn Böðvarsson, prófastur á Görðum á Álftanesi, stofnaði skólann til minningar um son sinn, Böðvar, sem dó 19 ára gamall árið 1869. Undir skólann keypti séra Þórarinn gamalt verslunarhús við sunnanverðan Hafnarfjörð. Á þeim stað höfðu upphaflega verslað kaupmenn frá Flensborg á Suður-Jótlandi og var verslunin kennd við heimabæ þeirra og kölluð Flensborgarverslun og staðurinn í daglegu tali kallaður Flensborg. Af þessu er heiti skólans dregið og skólinn hefur haldið nafninu þótt hann sé núna á öðrum stað í bænum. Elsta skólahúsið í Flensborg brann árið 1930 en áður hafði verið reist lítið skólahús við hlið þess og þar var skólinn starfræktur til ársins 1937 er hann var fluttur í nýtt hús á Hamarskotstúni. Frystihús stendur nú á lóð gamla skólahússins.
 
Um 16 ára skeið, frá 1892 til 1908, var sérstök kennaradeild við skólann og þar fór fram fyrsta skipulagða námið fyrir kennara á Íslandi. Þegar Kennaraskóli Íslands var stofnaður í Reykjavík var kennaradeildin í Flensborg lögð niður. Eftir það starfaði skólinn eingöngu sem gagnfræðaskóli, fyrst sem sjálfseignarstofnun, en árið 1930 tóku ríki og bær í sameiningu við rekstri hans.
 
Um 1970 tóku framhaldsdeildir til starfa við skólann og árið 1975 var honum formlega breytt í fjölbrautaskóla með sérstökum samningi milli menntamálaráðuneytisins og Hafnarfjarðarkaupstaðar og sama ár voru fyrstu nýstúdentarnir útskrifaðir. Gagnfræðapróf var síðast þreytt við skólann 1977 en 9. bekkur grunnskóla var áfram í skólanum í nokkur ár til viðbótar. Frá árinu 1981 hefur Flensborgarskólinn eingöngu verið framhaldsskóli.
 
Flensborgarskólinn starfar samkvæmt áfangakerfi eftir Aðalnámskrá framhaldsskóla frá 1999. Á grundvelli aðalnámskrár hefur verið unnin ný skólanámskrá, sem tekur mið af nýjungum í skólastarfi, þátttöku í alþjóðlegu samstarfi og því besta sem upp á er boðið í íslenskum framhaldsskólum. Frá 1998 hefur mikil vinna verið lögð í uppbyggingu tölvukerfis, innranets og notkunnar tölvunnar í kennslu. 
 
Á undanförnum árum hafa verið gerðar miklar úrbætur á húsnæði skólans og er stefnt að áframhaldandi úrbótum, viðbyggingu ásamt lagfæringum á nánasta umhverfi skólans á allra næstu árum.