Móttökuáætlun

 

Móttökuáætlun fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku 

Í reglugerð um rétt nemenda í framhaldsskólum til kennslu í íslensku segir að framhaldsskólar skulu setja sér móttökuáætlun fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku. Þar er tekið fram að áætlunin skuli taka mið af bakgrunni þeirra, tungumálafærni, færni á öðrum námssviðum og af þeirri kennslu og stuðningi sem veitt er.

Innritun nemenda

Nemendur innrita sig í gegnum heimasíðu Menntagáttar www.menntagatt.is hafi þeir tök á því eða koma á skrifstofu skólans og fylla út umsókn. Námsráðgjafi hefur svo samband við þá til að boða þá ásamt foreldrum/forráðamönnum í viðtal.

Samstarf við grunnskóla

Ef nemandi með annað móðurmál en íslensku kemur úr grunnskóla hér á landi hefur námsráðgjafi samband við skólann til að afla þeirra gagna og upplýsinga sem til eru.

Skiptinemar

Mál nemenda sem eru í skiptinámi við skólann fara almennt til áfangastjóra eða aðstoðarskólameistara en stuðningur námsráðgjafa og sérkennsluráðgjafa stendur þeim að sjálfsögðu einnig til boða.

Móttökuviðtal

Námsráðgjafi skipuleggur móttökuviðtal við nemanda og foreldra/forráðamenn hans. Skólinn útvegar túlk í viðtalið ef þess er þörf og þá verður sérkennsluráðgjafi einnig viðstaddur. Í viðtalinu aflar námsráðgjafi upplýsinga um bakgrunn nemenda og aðstæður. Þá er nemanda og foreldrum/forráðamönnum veittar allar nauðsynlegar upplýsingar um það nám sem stendur nemandanum til boða í skólanum, starfsemi skólans, þjónustu og skólareglur. Einnig verður stuðningur sem stendur nemandanum til boða, bæði í formi náms- og starfsráðgjafar auk annars stuðnings svo sem kennslu í ÍSA (íslenska fyrir útlendinga) og aðstoð við heimanám, kynntur í viðtalinu. Námsráðgjafi og sérkennsluráðgjafi eru nemendum með annað móðurmál en íslensku til aðstoðar. Í viðtalinu fá nemandi og foreldrar/forráðamenn einnig upplýsingar um þá starfsemi sem skólinn býður upp á utan lögbundinnar kennslu eins og til dæmis það félags- og tómstundastarf sem nemendafélag skólans stendur fyrir.

Gerð einstaklingsnámskrár fyrir nemendur

Þeir áfangar sem nemandi skráist í eru valdir í samráði við hann og reynt verður eins og hægt er að hafa stundatöfluna í samræmi við áhugasvið nemanda. Allir nemendur sem eru með annað móðurmál en íslensku þurfa þó að stunda nám í þeim áföngum sem eru sérstaklega í boði fyrir þennan hóp. Við skipulag námsins hjá nemendum með annað móðurmál en íslensku er lögð áhersla á að þeir séu í einhverjum almennum áföngum með íslenskum nemendum til að styrkja félagsleg tengsl og gagnkvæma félagslega aðlögun milli erlendra og íslenskra nemenda.

Skipulag samstarfs milli kennara og sérfræðinga innan skólans

Samstarf er á milli kennara sem kenna nemendum með annað móðurmál en íslensku kjarnaáfangana sem þeir þurfa að taka en námsráðgjafi eða sérkennsluráðgjafi sjá svo oft um milligöngu milli þeirra kennara sem kenna önnur fög