Menntun til farsældar

Í Flensborgarskólanum er unnið eftir hugmyndafræði um menntun til farsældar (e. Positive Education) en sú nálgun byggir á sýn jákvæðrar sálfræði. Menntun til farsældar hefur það meginmarkmið að stuðla að vellíðan og seiglu ungmenna og skapa jákvæðan skólabrag sem styður við að allir þeir sem tilheyra skólasamfélaginu megi blómstra, bæði nemendur og starfsfólk. 

Áhersla er lögð á styrkleika, hugarfar, athyglisþjálfun (núvitund) og samfélagslega þátttöku. Allir nemendur skólans fara í gegnum fjögurra anna áfangakeðju sem kallast HÁMArk.  Áfanginn miðar að því að styðja og hvetja þá til að efla sig sem einstaklinga og kynna fyrir þeim leiðir til að stuðla að vellíðan og seiglu.

Með hugtakinu vellíðan (well-being) er vísað til þess að lífið gangi vel og er blanda af því að líða vel og taka virkan þátt í lífinu (Huppert, 2009). Vellíðan snýst um jákvæðar tilfinningar eins og áhuga, skuldbindingu, sjálfsöryggi og ástúð. Vellíðan snýst ekki um að líða alltaf vel heldur einnig að geta tekist á við þær neikvæðu tilfinningar og þá erfiðleika sem eru hluti af lífinu. Hins vegar ef neikvæðar tilfinningar eru viðvarandi ógna þær velferð einstaklings og því er mikilvægt að þekkja leiðir til að vinna með tilfinningar sínar og líðan. 

Rannsóknir hafa sýnt að vellíðan barna og ungmenna hefur jákvæð áhrif námsárangur (Howell, 2009) og að sama skapi hafa kvíði og þunglyndi neikvæð áhrif (Owens, Stevenson, Hadwin, & Norgate, 2012). Þá hafa rannsóknir á áhrifum menntunar til farsældar sýnt fram á bættan árangur, aukna ánægju og skuldbindingu nemenda (Seligman o.fl., 2009).

Af hverju menntun til farsældar?
Lífið hjá ungu fólki og börnum í dag er ekki einfalt, áreitin eru mörg og fjölbreytt. Félagsleg samskipti hafa breyst og mikil krafa um að fylgjast með nýjustu tækninni og vera tengd netheimum nánast allan sólarhringinn. Ungt fólk stendur frammi fyrir fjölbreyttum kröfum um að standa sig vel í námi, vinnu, félagslífi, íþróttum, tónlist og ýmsum öðrum þáttum. Allt þetta áreiti getur skapað streitu og vanlíðan. 

Rannsóknir hafa sýnt að aukin streita getur stuðlað að pirringi, kvíða og þunglyndi og dregið úr sjálfsáliti og sjálfsöryggi (Rampel, 2012). Þessir þættir hafa einnig neikvæð áhrif á frammistöðu nemenda í skóla og hafa áhrif á einbeitingu þeirra.  Þá virðist þunglyndi og kvíði aukast jafnt og þétt hjá börnum og ungu fóki um allan heim þrátt fyrir að við höfum aldrei haft það betra á veraldlega vísu í hinum vestræna heimi (Seligman, 2011).  World Health Organization (WHO) segir að gera megi ráð fyrir að um 20 % barna og ungmenna í heiminum glími við geðraskanir (“10 facts”, e.d.) og að önnur helsta dánarorsök ungs fólks á aldrinum 15-29 ára í heiminum séu sjálfsvíg (IASP, 2012).

Í samræmi við þessar tölur hefur orðið mikil aukning á greiningum á þunglyndi, kvíða og streitu hjá börnum og unglingum (Seligman, 2011).  Í skýrslu starfshóps velferðarráðherra frá árinu 2011 um bætta heilbrigðisþjónustu og heilbrigði ungmenna á aldrinum 14-23 ára kemur fram að um 20% þessa aldurshóps glímir við væga og/eða jafnvel alvarlega geðræna erfiðleika (Velferðarráðuneytið, 2011). Þar kemur einnig fram að algengi örorku vegna geðraskana hefur vaxið og hefur notkun geðlyfja aukist að sama skapi. Í sömu skýrslu kemur fram að árangursríkast sé að auka áherslu á forvarnir, snemmtæka íhlutun og fjölbreytt gagnreynd meðferðarúrræði.

Þessi þróun er grafalvarlegt mál og mikilvægt að bregðast við til að sporna við þessari þróun og stuðla að aukinni vellíðan og seiglu.

Þegar innleiða á heildstæða skólastefnu sem byggir á hugmyndafræði menntunar til farsældar þá er fyrsta skrefið að fræða starfsfólk skólans, gefa þeim tækifæri til að tileinka sér þá þekkingu, og því næst að leiðbeina börnunum og ungmennunum og fella fræðin inn í allt skólastarfið (Seligman, 2011).

Með því að leggja áherslu á vellíðan í skólastarfi er ekki verið að draga úr kröfum um námslegan árangur, öllu frekar er verið að þróa færni sem stuðlar að góðum námsárangri (Seligman, o.fl. 2009). 

Líkanið Vellíðan og velgengni liggur til grundvallar innleiðingu menntunar til farsældar en það felur einnig í sér þætti heilsueflandi framhaldsskóla. Þeim áhersluþáttum sem í líkaninu felast er ætlað að stuðla að jákvæðum skólabrag, vellíðan og seiglu bæði nemenda og starfsfólks. 

Líkan um vellíðan og velgengni
Kenning Martin E. P. Seligman um vellíðan (e. Well-Being Theory) liggur til grundvallar því líkani sem haft verður til grundvallar við innleiðingu jákvæðu skólastarfi í Flensborg.  

Í kenningu sinni færir Seligman rök fyrir því að fimm lykilatriði séu mikilvæg til að einstaklingar geti blómstrað (Seligman, 2011). Þessi fimm atriði setur hann fram undir yfirskriftinni PHERMA:
P – positive emotions  – jákvæðar tilfinningar  
E – engagement – áhugi á verkefni, nýting styrkleika 
R – relationships - jákvæð samskipti og sambönd
M – meaning - tilgangur með lífinu
A – accomplishment – trú á að ná árangri

Fyrsta atriðið sem Seligman tiltekur sem lykilatriði velferðar eru jákvæðar tilfinningar. Með því er vísað til hamingju og lífsánægju sem eru grunnstoðir kenningarinnar. Annað atriðið er að einstaklingur upplifi að geta helgað sig verkefnum, þannig að hann nái fullkomnu flæði og gleymi stað og stund. Þriðja atriðið eru jákvæð samskipti við annað fólk og tiltekur Seligman að jákvæð upplifun eigi sér oftar en ekki stað í tengslum við annað fólk. Þá er fjórða atriðið að hafa tilgang í lífinu, að tilheyra eða vinna að einhverju sem er stærra en sjálfið, að lífið hafi gildi og það sé þess virði að lifa því. Loks er fimmta atriðið að afreka eitthvað á eigin forsendum, það þarf ekki að innifela í sér ytri hvatningu eða hrós heldur hafa tilgang fyrir þann sem um ræðir.  Öll þessi atriði stuðla að vellíðan og auka líkur á að einstaklingar nái að blómstra (Seligman, 2011).

Ástæðan fyrir því að þessir fjórir þættir voru valdir til að mynda líkan um Vellíðan og velgengni þ.e. núvitund, hugarfar, skapgerðarstyrkleikar og samfélagsleg ábyrgð, er að baki þeim liggja gagnreyndar rannsóknir sem sýna fram að þetta eru lykilatriði að vinna með til að einstaklingar fái tækifæri til að blómstra á eigin forsendum. Þessir þættir innifela allir í sér leiðir sem stuðla að PERMA og rannsóknir sýna einnig að þeir efla geðheilbrigði.
    
Líkan um vellíðan og velgengni styður vel við áherslur aðalnámskrá framhaldsskóla þar sem kemur fram að almenn menntun eigi að stuðla að aukinni hæfni einstaklingsins til að takast á við áskoranir daglegs lífs, efla skiling hans á eiginleikum sínum og hæfileikum og verða þannig hæfari til að leysa hlutverk sín í flóknu samfélagi (Aðalnámskrá framhaldsskóla, 2011).  Þá leggja grunnþættir menntunar áherslu á læsi á samfélagið, menningu, umhverfi og náttúru með það að leiðarljósi að börn og ungmenni læri að byggja sig upp andlega og líkamlega, að þau verði fær um að bjarga sér í samfélaginu og vinna með öðrum. Grunnþættir menntunar eiga einnig að efla framtíðarsýn, getu ungmenna og vilja til að hafa áhrif og hvetja þau til virkrar þátttöku í samfélaginu.