Starfsmannastefna Flensborgarskólans
Í starfsmönnum skólans býr mikill auður reynslu og þekkingar. Lykillinn að árangri er að skólinn hafi yfir að ráða hæfu og vel menntuðu starfsfólki, sem getur axlað ábyrgð og sýnt frumkvæði í starfi og þannig tekið virkan þátt í framþróun skólans.
Þess vegna er það stefna Flensborgarskólans að:
- Ráða til sín áhugasamt, traust og vel menntað starfsfólk og haga stjórnun og vinnu þannig að hæfileikar, dugnaður og frumkvæði hvers starfsmanns fái notið sín.
- Nýir starfsmenn fái strax nægilega aðstoð til að takast á við starfið og þeir geri sér strax fulla grein fyrir hlutverki sínu, ábyrgð og tengslum við aðra starfsmenn.
- Allir starfsmenn leggi sitt af mörkum til að efla góðan starfsanda í skólanum m.a. með gagnkvæmri virðingu, sanngirni og hjálpsemi í garð samstarfsfólks, nemenda og annarra sem njóta þjónustu skólans.
- Veita starfsmönnum svigrúm til að sinna tilrauna- og þróunarstarfi, námsefnisgerð og nýjungum.
- Hvetja til og stuðla að símenntun þannig að starfsfólk geti aflað sér þekkingar til að takast á við sífellt fjölbreyttari og viðameiri verkefni. Í þessu felst einnig að skólinn hvetur leiðbeinendur til að afla sér kennsluréttinda.
- Möguleikar starfsmanna til starfsframa séu jafnir þannig að tryggt sé að hæfileikar hvers og eins nýtist sem best óháð kyni, aldri, trúarbrögðum eða litarhætti, sjá nánar í jafnréttisáætlun skólans.
- Séð verði til þess að starfsmenn fái hvatningu og umbun fyrir vel unnin störf.
- Skólinn leggi kapp á markvissa upplýsingagjöf til starfsmanna með tölvupósti og með reglulegum fundum.
- Gefa starfsmönnum, sem þess óska, kost á sveigjanlegum vinnutíma eftir því sem unnt er.
- Að tryggja eins góða og heilsusamlega vinnuaðstöðu og unnt er.
- Að eiga gott samstarf við starfsmannafélag skólans, stéttarfélög kennara og annars starfsfólks og hafa samráð við trúnaðarmenn um ákvarðanir sem snerta vinnuaðstöðu og kjaramál.
- Verklagsreglur um forvarnir og viðbrögð gegn einelti og kynferðislegri áreitni má lesa í eineltisáætlun skólans.