FÉLA3TÓ05 - Félagsfræði - Tónlistin sem breytti heiminum

Viðfangsefni: Dægurtónlist, saga, þjóðfélagsatburðir, menning og samfélög.

Lýsing: Í áfanganum er sjónarhorni félagsfræða beitt á sögu dægurtónlistar Vesturlanda frá upphafi rokksins og fram til dagsins í dag, frá Elvis til Beyoncé og allt þar á milli. Dægurtónlist hefur í gegnum tíðina skipað veglegan sess í vestrænum samfélögum og haft mikil áhrif á samfélög, sér í lagi fjöldann allan af ungmennum, og að sama skapi hefur samfélagsleg þróun og samfélagsbreytingar mótað strauma og stefnur dægurtónlistarinnar á hverjum tíma fyrir sig. Í áfanganum rekjum við okkur sögulega í gegnum áratugina hérlendis sem erlendis, skoðum stefnur og strauma í dægurtónlist og alþýðumenningu og stöldrum við lykildæmi sem varpa skýru ljósi á þróun dægurtónlistarinnar, s.s. tónlistarfólk, hljómsveitir og aðra þátttakendur í dægurtónlistariðnaðinum. Markmið áfangans er veita innsýn í sögu og þróun dægurtónlistarinnar og setja í samhengi við ákveðna þjóðfélagsatburði og almennar breytingar á menningu og samfélagi Vesturlanda.

Forkröfur: Engar

 

Þekkingarviðmið: Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:

  • Sögu dægurtónlistar, tónlistarfólki, straumum, stefnum og margbreytileika
  • Samspili dægurtónlistar og samfélags
  • Hlutverki dægurtónlistar í þróun samfélaga og öfugt

 

Leikniviðmið: Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:

  • Fjalla um sögu dægurtónlistar og helstu áhrifavalda
  • Fjalla um hlutverk dægurtónlistar í samfélaginu
  • Tjá sig um dægurtónlist og áhrif hennar á sjálfan sig og aðra

 

Hæfniviðmið: Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:

  • Átta sig á sögu dægurtónlistar
  • Vera meðvitaður um samspil dægurtónlistar og samfélags
  • Taka afstöðu til ýmissa þátta er lúta að dægurtónlist og alþýðumenningu