Um skólann

 

Flensborgarskólinn í Hafnarfirði

Flensborgarskólinn er fjölbrautaskóli sem starfar eftir áfangakerfi. Skólinn á sér langa og merka sögu allt aftur á 19. öld, en frá árinu 1975 hefur hann verið framhaldsskóli. Um langt árabil var starfrækt öldungadeild við skólann og eins var Fiskvinnsluskólinn í Hafnarfirði á sínum tíma deild innan skólans.

Flensborgarskólinn er með elstu starfandi skólum á Íslandi, en hann hefur tekið margvíslegum breytingum á langri ævi. Hann var upphaflega stofnaður sem barnaskóli árið 1877, en var breytt í "alþýðu-og gagnfræðaskóla" fimm árum síðar eða árið 1882, en við það ártal hafur aldur skólans oftast verið miðaður.

Í dag er Flensborgarskólinn bóknámsskóli sem leggur áherslu á nám til stúdentsprófs af félagsvísinda-, raunvísinda- og viðskipta og hagfræðibraut, auk opinnar námsbrautar þar sem nemendur geta hannað sína eigin námsbraut úr námsframboði skólans. Einnig býður skólinn nám á starfsbraut sem er ætluð nemendum sem þurfa einstaklingsmiðað nám vegna fötlunar eða sértækra námsörðugleika. 

Núverandi námsbrautir skólans voru innleiddar haustið 2015 og byggja á Aðalnámskrá framhaldsskóla frá 2011.

  • Við skólann er öflugt íþróttaafrekssvið, sem nemendur geta samtvinnað öllum brautum skólans.
  • Á sama hátt geta listnámsnemendur nýtt listnám sitt sem hluta stúdentsprófs.
  • Einnig geta félagslífsnemendur skólans og þeir sem hafa áhuga á tækninni nýtt sér áhugasvið sín til eininga.

Allir nýnemar skólans fara í bekki sem tilheyra námsbrautum og eru þeir í bekkjum allt fyrsta árið. Þetta er gert til að styrkja námsmenningu skólans og hvetja til öflugra félagstengsla.

Nemendur skólans eru yfirleitt um 650.

Flensborgarskólinn hefur verið forystuskóli í verkefninu Heilsueflandi framhaldsskóli, frá árinu 2010.