- Skólinn
- Námið
- Þjónusta
- Starfsfólk
- Skólaskjár
- Enska
- Leiðbeiningar
- Spurt og svarað
Við Flensborgarskólann í Hafnarfirði er boðið upp á blandað kerfi áfanga og bekkjar og hefur það nú verið gert í að verða fjögur ár, eða allt frá vorönninni 2021. Bekkirnir hverju sinni eru tengdir námsbrautunum en einnig hefur námsstaða hvers og eins nemanda áhrif á bekkjarröðun. Alls eru bekkirnir 6 - 8 talsins á hverju ári og er Hámark - umsjónar-áfangi og sjálfseflingaráfangi miðpunktur starfsins í bekkjunum.
Markmið bekkjarkerfis á fyrsta ári
Til að byrja með var markmiðið fyrst og fremst að tryggja staðnám fyrir nýnema (á tímum heimsfaraldurs)en einnig að efla félagsleg tengsl þeirra, að þeim líði vel innan bekkjar jafnt sem skóla og skuldbindingu í námi. Í því felst að nemendur mæti vel, nái góðum námsárangri, njóti stuðnings kennara og að námsmenning skólans styrkist.
Markmiðið var einnig að raungera hugmynd sem Hámark byggir á en eftir því hafði verið kallað af skólasamfélaginu. Þannig gæti skólinn tryggt gott utanumhald um nemandann, veitt honum viðeigandi þjónustu og skapað ákveðna festu í námi með tilliti til brautar og áhugasviðs. Með þessu fyrirkomulagi næst að mynda samfellu í námi og þannig skapa sterkan vettvang til að skapa tengsl nemenda, þeirra á milli og við skólann, til framtíðar.
Að lokum má þess geta að flestir framhaldsskólar landsins eru annað hvort bekkjarskólar eða áfangaskólar og með þessari breytingu á námsskipan við Flensborgarskólann er nemendum gefinn kostur á að upplifa bæði kerfin í sama skólanum.
Skilgreining
Öllum nýnemum í Flensborgarskólanum er skipt í bekki á fyrsta ári sínu við skólann. Bekkirnir miðast að mestu leyti við brautir en einnig getur námsstaða nemenda haft áhrif. Hver bekkur hefur umsjónarkennara, Hámarkskennara, sem hittir nemendur tvisvar í viku. Umsjónarkennarinn heldur utan um nemandann og fylgist með námsframvindu og félagslegri stöðu hans. Nýnemar þurfa ekki að velja áfanga á milli anna á fyrsta árinu en að vori fer nemandinn yfir í áfangakerfi og velur því áfanga í samræmi við uppbyggingu brautar.
Tilurð skólaþróunarverkefnis um bekkjarkerfi á fyrsta ári
Tilurð verkefnisins má rekja til vorannar 2021 og aðstæðna í skólakerfinu á Íslandi vegna heimsfaraldurs. Tilgangurinn var skýr, að gera nýnemum kleift að stunda staðnám kæmi til takmarkana á skólastarfi. Einnig að efla félagsleg tengsl þeirra enda höfðu þau verið í lágmarki frá upphafi heimsfaraldurs. Nýnemum var skipt í átta bekki, hver hafði sína heimastofu vegna sóttvarna til að koma í veg fyrir blöndun nemendahópa. Við lok skólaársins 2021 var tekin ákvörðun um að halda þessu fyrirkomulagi áfram undir formerkjum skólaþróunarverkefnis til að minnsta kosti eins árs. Allir kennarar voru hluti af þróunarverkefninu, fengu leiðsögn er varðar bekkjarkennslu, aukið aðhald og mikilvægi félagstengsla. Verkefnið varð að lokum verkefni til tveggja ára, með tilheyrandi árangursmælingum og þróun í samstarfi við kennara skólans.
Nánari lýsing á verkefninu um bekkjarkerfi á fyrsta ári
Tveir verkefnastjórar leiddu verkefnið fyrsta árið, skólaárið 2021 - 2022, en þá var stuðningur við verkefnið mestur. Sá stuðningur fólst í fræðslu og leiðsögn en Vanda Sigurgeirsdóttir var fengin til að undirbúa kennara undir það að kenna nemendum í bekkjum. Þar voru kenndar aðferðir til þess að greina félagslega stöðu nemenda, hvernig megi koma auga á veikleika og styrkleika innan hópsins og efla bekkjaranda. Verkefnastjórar stýrðu einnig fundum bekkjarkennara, söfnuðu gögnum og komu á framfæri til kennarahópsins um m.a. agastjórnun og kennslu í bekkjum. Einnig var kennurum bent á leiðir til að greina samskipti sín við hópinn. Verkefnið var metið reglulega og með ýmsum leiðum. Bæði með viðhorfskönnunum, SVÓT greiningu, gögnum um námsárangur, brottfall og mætingu og var rætt við alla hlutaðeigandi, þ.e. nemendur og foreldra þeirra, auk kennara.