Skemmtanir og ferðir á vegum NFF og skólans

 

  • Nemendum ber að sýna góða hegðun og virða reglur skólans á öllum viðburðum á vegum skólans. Öllum alvarlegri málum, s.s. meðferð ólöglegra fíkniefna, skal umsvifalaust vísa til lögreglu.
  • Nemendum í skipulögðum ferðum á vegum skólans kann að vera gert að undirrita sérstakan samning fyrir upphaf ferðar þar sem nánar er kveðið á um þær reglur sem í ferðinni gilda.
  • Dansleikir, sem og aðrar skemmtanir eru tóbaks-, áfengis- og vímuefnalausir viðburðir.
  • Aldurstakmark á dansleiki NFF miðast við nýnema í framhaldsskólum ár hvert. Nemendur undir 18 ára aldri gætu þurft að framvísa leyfi frá foreldrum til þátttöku í skemmtunum eða ferðum sé þess óskað.
  • Stjórn NFF annast sölu miða á skemmtanir á vegum félagsins. Halda skal nákvæma skrá yfir þá sem kaupa miða.
  • Hver nemandi getur keypt miða fyrir einn gest og skal skrá nafn og kennitölu gestsins og þess sem kaupir miðann. Hver nemandi ber ábyrgð á þeim gesti sem hann kaupir miðann fyrir. Gerist gestur (sem er ekki nemandi í skólanum) brotlegur á skemmtun má sá gestgjafi ekki bjóða með sér á næsta dansleik.
  • Gæslumönnum á skemmtunum ber að taka niður nöfn og kennitölu þeirra sem sýna ósæmilega hegðun á skemmtunum.
  • Verði nemandi og/eða gestur uppvís að drykkju á dansleik, eða er að mati starfsmanna á dansleiknum drukkinn, er honum vísað frá sé hann 18 ára eða eldri en hringt í forráðamenn sé hann yngri en 18 ára og þeim gert að sækja hann. Ef nemandinn sem er 18 ára er í slæmu ástandi sökum áfengisneyslu skal leita til forráðamanna.
    • Í kjölfarið er nemi boðaður í viðtal hjá skólameistara eða þeim sem hann skipar til málsins og farið yfir stöðu mála. Við fyrsta brot fer neminn í bann á næsta ball. Við annað brot fer neminn í skemmtanabann í heilt ár frá broti. Við þriðja brot er nemanum vísað úr félagslífi skólans varanlega.
  • Vinnuregla um dansleiki: Listi yfir gesti á dansleik skal liggja fyrir og hafa borist skólameistara eigi síðar en kl. 16.00 sama dag og dansleikurinn fer fram. Á listanum skulu koma fram nöfn og kennitölur gesta, nöfn og kennitölur gestgjafa.