Viðbragðsáætlun vegna kynferðislegrar áreitni/kynferðislegs ofbeldis
„Ofbeldi eru athafnir sem valda annarri manneskju sársauka, andlegum eða líkamlegum án tillits til þess hvort um er að ræða ásetning eða ekki.“ (Landlæknir)
- Kynferðisleg áreitni er kynferðisleg hegðun sem er ósanngjörn og/eða móðgandi og í óþökk þess sem fyrir henni verður. Kynferðisleg áreitni getur verið líkamleg, orðbundin eða táknræn.
- Kynferðislegt ofbeldi er þegar þvingun er beitt til að fá einstakling til þess gera eitthvað kynferðislegt. Það getur til dæmis verið kynmök, innsetning eða snerting á líkamshluta. Þegar kynmök eru höfð við manneskju án samþykkis er það nauðgun. Ef einstaklingur er áreittur kynferðislega með orðum, í persónu eða stafrænt, er það líka kynferðisofbeldi.
Einstaklingur sem tilheyrir skólasamfélagi okkar og verður fyrir kynferðislegri áreitni eða kynferðislegu ofbeldi er hvattur til að tilkynna það til náms- og starfsráðgjafa, sálfræðings, trúnaðarmanns (starfsmaður), eftir því sem hann/hún/hán/þau telur/telja best.
Minnt er á tilkynningaskyldu þeirra sem afskipti hafa af börnum, samkvæmt Barnaverndarlögum nr. 80/2002.
Nemendur
Telji nemandi að brotið hafi verið gegn honum eða öðrum nemendum í Flensborgarskólanum skal hann leita til námsráðgjafa, hámarkskennara eða skólastjórnenda sem í samráði við viðkomandi finna hverju máli farveg.
Í framhaldi er unnið að málinu í samráði við þann sem telur á sér brotið með eftirfarandi hætti:
- Samtal við brotaþola og í kjölfarið haft samband við forráðamenn sé hann undir 18 ára aldri.
- Skólayfirvöld aðstoða aðila máls við að leita aðstoðar sérfræðinga.
- Haft er samband við aðila máls, ef samþykki brotaþola liggur fyrir, og hvorum/hverjum aðila um sig gefinn kostur á að tjá sig um málsatvik. Þetta er gert með aðstoð nemendaþjónustu.
- Þegar athugun máls er lokið er málsaðilum kynntar niðurstöður og framhald.
- Í málum þar sem ekki er um lögbrot að ræða er málsaðilum boðið að leita sátta, ef vilji er fyrir hendi og báðir aðilar máls samþykkir
- Ef um lögbrot er að ræða er málinu komið í lögformlegan farveg.
- Á öllum stigum skal tryggt að aðilum máls sé veittur viðhlítandi stuðningur, kjósi þeir að þiggja hann.
- Eftirfylgni er höfð með málsaðilum eftir því sem þurfa þykir.
- Þeim sem vinna að viðkvæmum málum á vegum skólans er skylt að gæta trúnaðar.
Starfsfólk
Telji starfsfólk sig verða fyrir kynferðislegri áreitni og/eða ofbeldi má leita til skólameistara, aðstoðarskólameistara og mannauðsstjóra skólans eins og fram kemur í jafnréttisáætlun. Einnig er hægt að leita til trúnaðarmanna. Þeir sem vinna að viðkvæmum málum innan skólans er skylt að gæta trúnaðar.
Í framhaldi er unnið í málinu í samráði við þann sem telur á sér brotið með eftirfarandi hætti:
- Haft er samband við aðila málsins og hvorum/hverjum aðila um sig gefinn kostur á að tjá sig um málsatvik.
- Rætt við samstarfsfólk eftir atvikum.
- Leitað er sátta ef svo ber undir en málinu komið í lögformlegan farveg takist það ekki eða grunur leikur á að lögbrot hafi verið framið.
- Leiti málsaðilar réttar síns munu skólastjórnendur og trúnaðarmenn vera viðkomandi til aðstoðar.
- Þegar könnun máls er lokið eru málsaðilum kynntar niðurstöður.
- Málum er fylgt eftir eins og þurfa þykir.
- Á öllum stigum skal tryggt að aðilum máls sé veittur viðhlítandi stuðningur, vilji þeir þiggja slíkt.
Viðurlög
Viðurlög við broti eru samkvæmt skólareglum og lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Gerandi verður látinn axla ábyrgð og getur fengið áminningu, verið fluttur til í áfanga/starfi eða verið vikið úr skóla/sagt upp.