Akademísk heilindi

 

Stefna Flensborgarskólans varðandi heilindi í námi

Leiðarljós Flensborgarskólans er menntun til farsældar. Með því vill Flensborgarskólinn stuðla að jákvæðri námsmenningu ásamt aukinni skuldbindingu nemenda í námi. Ábyrgð nemenda er meðal annars fólgin í því að vinna heiðarlega, sýna skólastarfinu virðingu og tryggja jafnan rétt allra. Í Flensborgarskólanum gilda eftirfarandi reglur um heilindi í námi.

  1. Nemandi skal kynna sér reglur og verklag hvers áfanga.
  2. Nemandi skal skila eigin efni, bæði í einstaklings- og hópvinnu. Í hópvinnu bera nemendur sameiginlega ábyrgð á að unnið sé samkvæmt reglum áfangans og taka ábyrgð ef reglur eru brotnar.
  3. Nemandi sem aðstoðar samnemendur sína við að brjóta gegn reglum áfanga eða skólans telst samsekur. Á þetta meðal annars við um að láta nemanda fá eigið verkefni, vinna verkefni fyrir annan og aðstoð í prófi.

Ritstuldur er óheimill í námi við Flensborgarskólann. Ritstuldur felur í sér að nemandi notfærir sér í verkefnum sínum verk annarra án þess að geta heimilda og vísa til þeirra eftir þeim reglum sem skóli eða kennari leggur til.

Ýmsar gerðir eru til af ritstuldi eða akademísku misferli[1]

  • Ritstuldur: Að nemandi skili viljandi eða óviljandi verkefni frá öðrum sem sínu án þess að geta heimilda.
  • Sjálfsstuldur: Að nemandi noti að miklu eða öllu leyti verkefni frá sjálfum sér til skila í öðru verkefni án þess að geta heimilda eða bera undir kennara.
  • Samsekt: Að nemandi leyfi öðrum nemanda að afrita sitt verkefni og skila sem sínu.
  • Svindl: Að nemandi fari ekki eftir reglum í prófi. Notkun á verkefnum eða vinnu annarra. Taki með sér óheimil gögn í próf, valdi truflun eða eigi í óeðlilegum samskiptum við annan próftaka.

 

Viðurlög við brotum

Verði nemandi uppvís að ritstuldi á kennari að gera nemanda grein fyrir alvarleika málsins. Kennari getur gefið nemanda færi á að vinna verkefni aftur, ef hann kýs. Ef nemandi fær ekki að vinna verkefni aftur fær viðkomandi 0 fyrir sitt verkefni. Nemandi sem telst samsekur getur átt það á hættu að fá 0 fyrir sitt verkefni. Gott er fyrir kennara að leita til fagstjóra um leiðsögn. Atvikið skal skráð í gögnum kennara eða á INNU (fer eftir alvarleika brots).

Við endurtekin brot og alvarleg er málinu vísað til skólastjórnenda samkvæmt reglum skólans. Brot á heilindum í námi geta leitt til brottvísunar úr skóla.

 

Um notkun gervigreindar í námi.

Gervigreind er tækni sem mun mögulega hafa mikil áhrif á kennsluhætti og námsmat til framtíðar. Gervigreind getur verið áhrifaríkt tæki til að einfalda og flýta fyrir vinnu ef rétt er með hana farið. Þróun þessarar tækni er mjög hröð og þvi er mikilvægt að leggja áherslu á að allar reglur um notkun búnaðar eða hjálpartækja í námi gilda einnig um notkun gervigreindar. Í þessu sambandi er mikilvægt að hafa í huga eftirfarandi meginreglur:

  • Notkun gervigreindar þarf að uppfylla kröfur Flensborgarskólans um heilindi í námi, bæði frá tæknilegu og siðferðilegu sjónarhorni.
  • Um notkun gervigreindar í skólastarfi gilda sömu reglur og um notkun allra annarra heimilda og aðstoðar í námi. Það þýðir að vísa þarf til heimilda skv. viðurkenndum stöðlum í námi og samkvæmt verklagi og verklýsingu hvers áfanga.
  • Um notkun gervigreindar í skólastarfi gilda sömu siðferðislegu reglur og skyldur og um notkun annarra tækja og tóla. Flensborgarskólinn leggur áherslu á að notkun gervigreindar í verkefnavinnu sé unnin með leyfi viðkomandi kennara og í takt við reglur og verklag hvers áfanga fyrir sig.
  • Um misnotkun gervigreindar í skólastafi gilda sömu reglur og um allt annað akademískt misferli.

 

Hvernig geta nemendur varast akademískt misferli?

Með því að:

  • Kynna sér stefnu skólans varðandi akademísk heilindi og viðurlög við brotum á reglum skólans.
  • Leggja sig fram um að ljúka verkefnum á eigin spýtur.
  • Afhenda ekki öðrum nemanda verkefni sín.
  • Afrita ekki verkefni frá öðrum nemanda.
  • Forðast að fá of mikla hjálp við verkefnaskil eða yfirlestur, svo sem frá vinum, ættingjum, samnemendum, í einkatímum, frá ritgerðabönkum eða aðilum sem bjóða prófarkalestur, eða nýta gögn af deilisíðum á netinu.
  • Varast að hjálpa samnemendum sínum of mikið við að ljúka verkefnum.
  • Geta alltaf heimilda, hvaðan sem þær eru fengnar (á prenti, af neti eða annars staðar).
  • Segja alltaf frá heimildum í munnlegum kynningum.
  • Láta ekki meta sama verk oftar en einu sinni til einkunnar.
  • Læra hvernig á að vísa til heimilda á réttan hátt og gera heimildaskrá.
  • Spyrja kennara eða bókasafns- og upplýsingafræðing um vafaatriði.
  • Skila verkefni í gegnum Turnitin-kerfið og nýta það til að læra að fara vel með heimildir.
  • Nýta netið og samfélagsmiðla á ábyrgan hátt.
  • Varast að nota gervigreind í verkefnavinnu nema að farið sé sérstaklega fram á það í verkefnalýsingu.
  • Aldrei skila inn ritgerð eða verkefni sem gervigreindin hefur gert, það er einfaldlega svindl enda textinn ekki nemandans.

 

Útgefið 8. febrúar 2023. Endurútgefið í janúar 2024.

 

 

 

 

 

 

[1] Efni byggt á The Plagiarism Spectrum. (2016). Turnitin. https://www.turnitin.com/static/plagiarism-spectrum/