Núvitund (mindfulness) felst í því að veita lífi okkar og líðan á hverri stundu vakandi athygli með opnum huga, forvitni og án fordóma. Verið er að þjálfa athygli og stækka meðvitund um það sem er að gerast innra með okkur og í lífi okkar á meðan það er að gerast. Núvitund hjálpar okkur að vera til staðar í eigin lífi, að vera bæði andlega og líkamlega til staðar sem oftast.
Rannsóknir sýna fjölþættan ávinning þess að stunda núvitund. Meðal þess sem niðurstöður sýna er að núvitundar bætir athygli, einbeitingu, geðheilsu, dregur úr kvíða, streitu og endurteknu þunglyndi.
Rannsóknir á ungmennum sýna að ástundun núvitundar hefur jákvæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu, félagsfærni, tilfinningalíf, líðan þeirra og árangur í námi.
Flensborgarskólinn byrjaði að innleiða núvitund í skólastarf haustið 2012 með því að bjóða starfsfólki uppá 8 vikna núvitundarnámskeið fyrir tilstuðlan Embættis landlæknis og í tengslum við geðræktar þema Heilsueflandi framhaldsskóla. Síðan þá hefur starfsfólki boðist að fara á slík námskeið þeim að kostnaðarlausu og hafa nú ríflega 60 starfmenn farið í gegnum slíkt námskeið.
Haustið 2013 var nemendum boðið í fyrsta sinn uppá núvitund sem átta vikna valnámskeið og hafa um 150 nemendur farið í gegnum slík námskeið. Frá vori 2016 hefur verið kynning á núvitund í áfanganum HVA en þá fara nemendur í gegnum fjórar kennslustundir þar sem grunnatriði núvitundar eru kynnt. Jafnframt er í boði valkvætt átta vikna núvitundarnámskeið. Frá hausti 2017 munu allir nemendur á öðru ári fara í gegnum níu vikna núvitundarnámskeið í gegnum áfangann HÁMArk.
Komið hefur verið upp aðstöðu til hugleiðslu og kyrrðastunda fyrir starfsfólk og er unnið að því að finna slíkan stað fyrir nemendur.
Megin markmiðið með innleiðingu núvitundar í Flensborgarskólanum er að veita starfsfólki og nemendum tækifæri til að kynnast núvitund og kanna þar með hvort núvitund sé eitthvað sem getur hjálpað þeim til að takast á við áskoranir daglegs lífs. Rannsóknir sýna jákvæðan ávinning þess að tileinka sér núvitund og viljum við gefa öllum tækifæri til að gera mikilvægustu rannsóknina en það er að reyna á eigin skinni hvort núvitund getur stuðlað að aukinni athygli, einbeitingu og vellíðan.