Prófreglur

Reglur um framkvæmd prófa

Í Flensborgarskólanum gilda eftirfarandi reglur um framkvæmd lokaprófa:

  1. Nemendur skulu koma stundvíslega til prófs. Þeir skulu áður hafa kynnt sér á auglýsingatöflu skólans hvar þeim er ætlaður staður í prófinu.
  2. Nemendur mæta með skilríki sem þeir láta liggja á borðinu meðan á prófi stendur. Gild skilríki eru skólaskírteini, vegabréf, ökuskírteini og greiðslukort með mynd.
  3. Nemendur koma eingöngu með skriffæri í próf og það sem sérstaklega er heimilað í viðkomandi prófi. Farsímar og önnur snjalltæki eru bönnuð.
  4. Nemendum er óheimilt að aðstoða aðra eða þiggja aðstoð frá öðrum í prófi. Brot á þessari reglu veldur tafarlausri brottvísun úr prófi og telst nemandi fallinn á því. Skólameistari ákvarðar um frekari viðurlög.
  5. Próftími er afmarkaður, og ákveðinn hverju sinni. Nemandi hefur leyfi til að koma allt að 15 mín. of seint í próf, síðan er stofunni lokað. Viðkomandi fær ekki framlengdan tíma heldur skerðist próftími hans sem seinkomunni nemur. Ekki er heimilt að skila úrlausnum fyrr en 30 mínútur eru liðnar frá upphafi prófsins.
  6. Nemandi, sem ekki getur komið í próf vegna veikinda, skal tilkynna forföll í síðasta lagi kl. 12:00 á hádegi á prófdegi. Nánari upplýsingar eru í kaflanum um frestun prófa.
  7. Einkunnir finna nemendur og forráðamenn í INNU frá og með auglýstum einkunnabirtingartíma. Kennurum er óheimilt að gefa upp einkunnir fyrr þótt eftir því sé leitað.
  8. Sé þess óskað er hægt að fresta prófi og taka það sem forfallapróf. Það er tilkynnt fyrir kl. 12:00 daginn sem aðalprófið er haldið. Fyrir þessa þjónustu skal greiða sérstaklega og skal gjaldið greitt áður en forfallaprófið hefst. Reglur um þetta eru auglýstar með góðum fyrirvara.

Reglur um frestun prófa:

  • Hægt er að tilkynna um frestun prófs á skrifstofu skólans á opnunartíma hennar. Tekið er við skráningum frá u.þ.b. 2 vikum fyrir upphaf próftímabils.
  • Upplýsingar um tímasetningu forfallaprófa má finna í próftöflunni.
  • Gjald fyrir frestun prófs er 3000 kr. Ef greitt er daginn sem forfallaprófið er haldið, er gjaldið kr. 5.000.-
  • Athugið að skráning er aldrei gild nema gjaldið hafi verið greitt.

Nemendur, sem eiga samkvæmt próftöflu að taka:

  • þrjú próf á sama degi,
  • tvö próf á sama tíma,
  • tvö próf, sitt á hvorum próftímanum, tvo daga í röð,

geta fengið einu eða öðru prófinu frestað án gjalds og taka þá forfallapróf í þeim.

Veikindi á próftíma:

  • Nemendur skulu tilkynna um veikindi í prófi til skrifstofu fyrir kl. 12:00 þann dag sem prófið er, í síma 565 0400 eða með tölvupósti á netfangið skrifstofa@flensborg.is.
  • Ekki er hægt að tilkynna um veikindi í prófum í gegnum Innu.
  • Best er að biðja um staðfestingu á póstinum til að tryggja að tilkynningin hafi borist.
  • Nemendur skila læknisvottorði á forfallaprófsdegi og greiða þ.a.l. ekki fyrir forfallaprófið, eða greiða forfallaprófgjaldið.
  • Greiðslupplýsingar má fá hjá skrifstofu skólans eða gegnum netfangið skrifstofa@flensborg.is .

    .

Prófsýning

Þegar lokaeinkunnir hafa verið birtar í lok annar er haldin prófsýning samkvæmt nánari auglýsingu þar sem nemendum gefst kostur á að skoða prófúrlausnir sínar og fá skýringar á námsmati hjá kennara. Prófsýning fer alla jafna fram sama dag og einkunnir eru birtar.

Ef fram kemur skekkja í mati eða einkunnargjöf skal slíkt leiðrétt svo fljótt sem verða má og birt nemanda. Það gerist þannig að kennari sendir áfangastjóra leiðréttingu sem færð er tafarlaust í Innu.

Prófúrlausnir lokaprófa eru varðveittar í eitt ár eftir að áfanga lýkur. Síðan er þeim eytt. Eftir þann tíma verður einkunn ekki breytt nema með endurtöku prófsins.

Einkunnir símatsáfanga eða verkefna, þar sem úrlausnum hefur verið skilað í hendur nemenda, standa að lokinni prófsýningu. Verkefni, sem nemandi hefur tekið með sér úr skólanum, eru ekki nothæf í kærumálum.

Nemandi, sem stefnir að útskrift og er með fall í einni grein sem stendur í vegi fyrir að hann geti útskrifast, getur fengið að endurtaka það próf. Ekki er hægt að fá endurtökupróf í grein þar sem einkunn er fimm eða hærri.

Nemandi getur látið falleinkunn (lágmarkseinkunn 2,0) standa í lokaáfanga áfangakeðju ef hann á umframeiningar sem því nemur. Hægt er að láta einkunn (eins - tveggja - þriggja) áfanga standa ef einingasafnið leyfir.