FRAN1EL05 - Franska - Einstaklingurinn og lífið, 1.áfangi í frönsku

Viðfangsefni: Orðaforði, framburður, málfræði, tjáning og hlustun

Lýsing: Megináhersla er lögð á að kenna nemendum undirstöðuatriði tungumálsins. Færniþáttunum fjórum er sinnt jafnhliða eftir bestu getu og nemendur eru æfðir í að tala og skrifa um sjálfa sig, fjölskyldu sína, vini, áhugamál og nánasta umhverfi sitt. Einnig æfast þeir í samskiptum við ákveðnar aðstæður í daglegu lífi. Mjög mikil áhersla er lögð á framburðaræfingar studdar hlustun þar sem mikilvægt er að nemendur temji sér góðan framburð strax í byrjun frönskunámsins. Markviss uppbygging orðaforða og kennsla í málfræði fer fram með hliðsjón af samskiptamarkmiðum áfangans. Jafnframt er fléttað inn í námsefnið kynningu á Frakklandi og frönskumælandi þjóðum, franskri tungu og menningu. Einnig er fjallað lítillega um uppruna frönskunnar, útbreiðslu hennar í heiminum og hvernig hún nýtist sem alþjóðlegt samskiptamál.

Forkröfur: Engar

Þekkingarviðmið: Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:

  • þeim orðaforða sem er nauðsynlegur til að ná leikni- og hæfnimarkmiðum áfangans
  • grundvallarþáttum franska málkerfisins
  • framburðarreglum og tónfalli tungumálsins
  • Frakklandi og öðrum frönskumælandi þjóðum og fengið innsýn í franska menningu, siði og samskiptavenjur

Leikniviðmið: Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:

  • skilja talað mál um efni sem hann þekkir þegar talað er hægt og skýrt
  • fylgja einföldum fyrirmælum og skilja helstu kvejður og ávörp
  • lesa einfalda texta um efni, sem tengist daglegu lífi og inniheldur orðaforða áfangans
  • segja á einfaldan hátt frá sjálfum sér, fjölskyldu sinni, vinum og áhugamálum
  • taka þátt í stuttum samtölum um efni, sem hann þekkir eða hefur áhuga á og beita kurteisis-og málvenjum við hæfi
  • skrifa stutta, einfalda texta um sjálfan sig og nánasta umhverfi sitt, svo sem stuttar lýsingar og samtöl
  • tjá sig munnlega og skrifalega á einfaldan hátt um persónulega hagi og efni sem hann þekkir

Hæfniviðmið: Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:

  • greina einfaldar upplýsingar í mæltu máli
  • skilja meginatriði einfaldra texta og greina einfaldar upplýsinar
  • taka þátt í einföldum samræðum og nota mismunandi kveðjur og samskiptaform eftir aðstæðum
  • nýta þekkingu og leikni til að leysa úr viðfangsefnum einn eða í samstarfi við aðra
  • meta eigið vinnuframlag og framfarir
  • tileinka sér lifandi áhuga á frönskunáminu, franskri menningu og ólíkum menningarheimum