ÍSLE3BS05 - Íslenska - Bókmenntasaga síðari alda-frá rómantík til rafbóka
Viðfangsefni: Íslenskar bókmenntir og bókmenntasaga síðari alda
Lýsing: Fjallað verður um bókmenntasögu á 19. og 20. öld og í upphafi þeirrar 21. en einnig helstu strauma og stefnur í þjóðfélags- og menningarmálum á þessum tíma. Ýmsir textar, lengri og styttri, og sýnishorn íslenskra bókmennta frá þessu tímaskeiði verða lesin. Staldrað verður sérstaklega við meginþætti bókmenntasögunnar, unnið að margvíslegum verkefnum og hugtök og aðferðir við textarýni rifjuð upp og þjálfuð. Einnig verður stuðst við margs konar fræðsluefni úr fjölmiðlum og netheimum ásamt kvikmyndum sem tengjast tímabilinu. Lögð verður áhersla á að efla læsi nemenda á fjölbreytta texta og þjálfa þá í ritun. Þá verður einnig kveðið ríkt á um sjálfstæði nemenda í vinnubrögðum og þátttöku þeirra í umræðum.
Forkröfur: ÍSLE 2BM05
Þekkingarviðmið: Nemandi hafi öðlast þekkingu og skilning á:
- helstu þáttum íslenskra bókmennta á 19. og 20. öld og í upphafi þeirrar 21
- helstu straumum og stefnum í þjóðfélags- og menningarmálum bæði hérlendis og erlendis á sama tímaskeiði
- helstu höfundum á þessum tíma, inntaki bókmenntaverkanna, samtíma þeirra og erindi þeirra við nútímann
- bókmenntalegu, sögulegu, félagslegu, menningarlegu og pólitísku gildi þeirra texta sem fjallað er um í áfanganum
- hugtökum og aðferðum við textarýni
Leikniviðmið: Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
- tjá lestrarreynslu sína á málefnalegan hátt, munnlega og skriflega.
- beita bókmenntalegum og stílfræðilegum hugtökum til skilnings á þeim bókmenntaverkum sem hann les
- greina, túlka og beita gagnrýninni hugsun við lestur og textarýni ýmiss konar texta frá þeim tíma sem hér um ræðir
- taka þátt í umræðum um bókmenntir og menningarþætti tímabilsins.
- beita tungumálinu á skýran, árangursríkan og blæbrigðaríkan hátt við umfjöllun bókmennta og annarra menningartengdra þátta
- miðla þekkingu sinni með kynningum, ritgerðum eða öðrum tjáningarformum á greinargóðan hátt
- afla sér heimilda og upplýsinga úr netheimum eða annars staðar
Hæfniviðmið: Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
- tjá sig, ritrýna og fjalla um íslenskar bókmenntir tímabilsins í orði og rituðum texta á viðeigandi og árangursríkan hátt við mismunandi aðstæður
- sýna frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum
- nýta sér heimildir og aðrar upplýsingar við greiningu og kynningu bókmennta
- vinna með heimildir á viðeigandi og ábyrgan hátt