SAGA2GB03 / SAGA2GB02 - Gettu betur: SAGA2GB03 (Haust) og SAGA2GB02 (Vor)

Viðfangsefni: Gettu betur keppnin, spurningar, fróðleiksöflun, minnistækni, hraðlestur

Lýsing: Áfangi sem miðar að því að undirbúa nemendur undir þátttöku í spurningakeppni framhaldsskólanna: Gettu betur. Þeir nemendur sem taka þátt í áfanganum á haustönn eru skráðir í SAGA2GB03 sem er kenndur í töflu. Á vorönn er það síðan keppnisliðið sjálft og aðstoðarfólk sem er skráð í SAGA2GB02 sem er ekki kenndur í töflu.

Forkröfur: Allir nemendur geta sótt um að komast í áfangann, en formleg inntaka er byggð á niðurstöðum úr sérstöku forprófi sem lagt er fyrir nemendur skólans.

Þekkingarviðmið: Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:

  • fróðleik og upplýsingum sem gagnast við þátttöku í Gettu betur
  • mismunandi aðferðum við að meðtaka upplýsingar
  • mismunandi tegundum spurninga
  • sögu í sinni víðustu mynd; bæði fornsögu sem og samtímasögu
  • samfélaginu sem við lifum í, í ljósi þeirra sögulegu atriða sem farið er yfir í áfanganum
  • einföldum aðferðum við skipulag á námi og daglegu lífi

Leikniviðmið: Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:

  • afla sér upplýsinga á fjölbreyttan máta
  • semja spurningar í mismunandi útfærslum, m.a. eftir lengd og getustigi
  • svara spurningum hratt og af öryggi
  • vinna sem hluti af sterkri liðsheild
  • nýta rökhugsun og samræðulist til þess að komast að réttu svari í samráði við liðsfélaga
  • útbúa einfalt vikuskipulag sem tekur mið af því að láta þátttöku í Gettu betur ganga vel saman með námi og öðrum áhugamálum utan skóla

Hæfniviðmið: Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:

  • taka þátt í Gettu betur keppninni á jafningjagrundvelli samanborið við aðra framhaldsskóla
  • semja og stýra einfaldri útgáfu af Barsvarskeppni (Pub Quiz)
  • koma fram opinberlega og svara spurningum af öryggi
  • auka velgengni sína í námi almennt
  • halda góðu skipulagi á lífinu almennt í kringum álagspunkta á borð við þátttöku í Gettu betur