- Skólinn
- Námið
- Þjónusta
- Starfsfólk
- Skólaskjár
- Enska
- Leiðbeiningar
- Spurt og svarað
Framundan er viðburðarík vika, sannkölluð afmælisvika en föstudaginn 1. október fagnar skólinn 139 ára afmæli sínu. Flensborgarskólinn er með elstu starfandi skólum á Íslandi en hefur tekið margvíslegum breytingum í gegnum áranna rás. Í dag erum við öflugt skólasamfélag, skapandi og frjó í kennsluháttum, leiðandi skóli í heilsueflingu og í óðaönn við að innleiða græn skref bæði í rekstri skólans og í öllu daglegu starfi hans. Við getum svo sannarlega verið stolt af skólanum okkar og hugmyndin er að nota vikuna til þess að gleðjast saman af því tilefni á einn eða annan hátt.
Fimmtudagurinn 30. september er afmælisdagskrá í sal skólans fyrir alla, bæði nemendur og starfsfólk.
Bergsveinn Ólafsson verður með erindi sem ber yfirskriftina Axlaðu eins mikla ábyrgð og þú getur. Hljómsveitin Hipsumhaps lítur við, mötuneytið selur pizzusneiðar og skólinn býður upp á ís. Eftir að dagskrá lýkur halda nemendur áfram með skóladaginn.
Föstudaginn 1. október er engin kennsla í skólanum enda svokallaður uppsóps- og hleðsludagur. Nemendur og starfsfólk geta nýtt daginn til þess að vinna upp verkefni og hlaða batteríin.
Við minnum á raungreinaver sem hefst á morgun klukkan 15:45 í stofu H202. Þar er hægt að fá stuðning í stærðfræði og raungreinum, nemendum að kostnaðarlausu. Einnig minnum við á núvitundarstund í fyrramálið, klukkan 09:35 í Kotinu, sem er fyrir framan H202.
Foreldraráð skólans boðar til aðalfundar þriðjudaginn 5. október kl. 17:30. Fundurinn fer fram í sal skólans. Á fundinum fara fram hefðbundin aðalfundarstörf og verður kosið í nýja stjórn en einnig verður boðið upp á fyrirlestur um lesblindu. Nánari upplýsingar koma síðar.
Hér má sjá bréf sem skólameistari sendi nemendum og forráðamönnum þeirra fyrr í dag.