Áfram staðkennsla - mötuneyti opnar og nemendum býðst námsver

Áfram höldum við í staðkennslu í vikunni sem framundan er. Allir áfangar eru kenndir í húsi samkvæmt stundatöflu.

Á morgun verður mötuneyti skólans opnað fyrir nemendur, með fjöldatakmörkunum þó, en sæti verða fyrir 30 manns í salnum og pláss fyrir 30 í röð að afgreiðslunni. Þá reynir á sóttvarnir og því mikilvægt að nemendur séu varkárir og vakandi fyrir reglum um grímuskyldu og sprittun, bæði í matsal og kennslustofum. Kennslustofur verða áfram opnar þeim sem koma með nesti en ljóst er að tafir gætu orðið á afgreiðslu í mötuneyti fyrst um sinn.

Námsverin fara af stað á þriðjudaginn og þá verður boðið uppá aukatíma í íslensku og stærðfræði frá kl. 15:50-16:50 í stofum M308 og M309. Þar geta nemendur fengið aðstoð við heimanám og verkefnavinnu en einnig er hægt að nýta námsverið í íslensku til að fá aðstoð með textaskrif og prófarkalestur fyrir verkefnaskil.

Nemendur og forráðamenn eru hvattir til að rifja upp skólasóknarreglurnar en þær er að finna á heimasíðu skólans. Einnig er gott að kynna sér verklag við veikindaskráningu nemenda og hvernig skammtímaleyfum er háttað. 

Í lokin er rétt að minna á öfluga nemendaþjónustu skólans en hægt er að panta viðtalstíma hjá Sunnu og Laufeyju námsráðgjöfum á heimasíðu skólans. Einnig er Rannveig Klara til taks fyrir nemendur sem þurfa aðstoð vegna námsörðugleika. 

 

Hér má lesa bréf sem skólameistari sendi til nemenda og forráðamanna fyrr í dag.