- Skólinn
- Námið
- Þjónusta
- Starfsfólk
- Skólaskjár
- Enska
- Leiðbeiningar
- Spurt og svarað
Brautskráning stúdenta frá Flensborg fór fram í dag við hátíðlega athöfn.
Brautskráðir voru 44 nemendur að þessu sinni. Nemendur útskrifuðust af fjórum brautum skólans; félagsvísinda-, raunvísinda-, viðskipta- og hagfræði- og opinni braut. Níu þeirra luku einnig námi á íþróttaafrekssviði skólans.
Hæstu einkunn hlaut Kládía M. Kristjánsdóttir en hún hlaut viðurkenningu fyrir góðan árangur í raungreinum á stúdentsprófi frá Háskólanum í Reykjavík. Einnig hlaut hún styrk frá Rio Tinto og verðlaun fyrir myndlist og íslensku. Hún hlaut einnig viðurkenningu frá Rótarýklúbbi Hafnarfjarðar fyrir góðan árangur á stúdentsprófi. Jóna Guðrún Sighvatsdóttir fékk einnig styrk frá Góu – Kentucky Fried vegna góðs árangurs í greinum á viðskipta- og hagfræðibraut.
Tveir starfsmenn voru kvaddir eftir farsælan feril við bæði kennslu og stjórnun en það voru þau Guðrún Hafdís Eiríksdóttir, stærðfræðikennari og Magnús Þorkelsson, skólameistari. Einnig var veittur styrkur, kr. 500.000, úr fræðslusjóði Jóns Þórarinssonar en hann hefur verið veittur á hverri útskrift á jólum frá 1992. Guðlaugur Bjarki Lúðvíksson, meistaranemi í efnaverkfræði við Háskólann í Zürich, er styrkþegi sjóðsins að þessu sinni en hann stefnir á að ljúka framhaldsnámi sínu í Sviss með meistaraverkefni um föngun og förgun á koltvíoxíði frá áliðnaði.
Erla Sigríður Ragnarsdóttir, skólameistari, lagði áherslu á í ræðu sinni að góð sátt ríkti í skólasamfélaginu á Hamrinum. Áfram þyrfti að skerpa á skuldbindingu nemenda í námi, styðja við félagsþroska þeirra og samheldni innan nemendahópsins. Bekkjarkerfið á fyrsta ári væri liður í þvi verkefni. Mikilvægt væri líka að halda í gleðina, hlúa að hvort öðru og minnti á gildi þess að leggja sitt af mörkunum, bæði til skólasamfélagsins og samfélagsins alls. Það væri hinn eini sanni jólaandi.
Guðrún Árný Karlsdóttir lék á píanó og söng við athöfnina.
Við óskum nýstúdentum og fjölskyldum þeirra hjartanlega til hamingju með daginn.
Fleiri myndir má sjá á Facebook-síðu skólans.