Brautskráning stúdenta frá Flensborg 28. maí 2021

119 stúdentar brautskráðust frá Flensborgarskólanum í Hafnarfirði þann 28. maí. Nemendur brautskráðust af starfs-, félagsvísinda-, raunvísinda- og viðskipta- og hagfræðibraut en einnig af opinni námsbraut til stúdentsprófs. 35 af þessum nemendum útskrifuðust einnig af íþróttaafrekssviði skólans.
Dúx skólans að þessu sinni var Óskar Atli Magnússon með 9,56 í meðaleinkunn og hlaut hann verðlaun fyrir bestan árangur á raunvísindabraut frá Háskólanum í Reykjavík. Einnig hlaut hann styrk frá Rio Tinto fyrir góðan árangur í raungreinum, verðlaun frá stærðfræðifélaginu og viðurkenningu fyrir frábæran árangur í ensku og spænsku. Hann hlaut einnig viðurkenningu frá Rótarýklúbbi Hafnarfjarðar fyrir frábæran árangur á stúdentsprófi.
Semídúx skólans var Júlía Rós Auðunsdóttir, af viðskipta- og hagfræðibraut. Fyrir það hlaut hún styrk frá Góu. Hún hlaut einnig Menntaverðlaun Háskóla Íslands og viðurkenningu fyrir mjög góðan árangur í stærðfræði.
Óskar Atli og Júlía Rós fengu einnig viðurkenningu fyrir íþróttaiðkun sína en þau leika bæði knattspyrnu hjá FH.
Í ræðu sinni kom Erla skólameistari meðal annars inn á mikilvægi samvinnu framhaldsskóla landsins og búið er að tryggja þann grundvöll með samráði vetrarins. Að hennar mati ætti ekkert að standa í vegi fyrir að nemendur vaxi og dafni í námi. Hún telur skólann gera vel og ber aðsókn í skólann þess vitni. Flensborgarskólinn sé öflugt námssamfélag þar sem farið er fram á að nemendur séu virkir í sínu námi, mæti, taki þátt í umræðum, beiti skapandi vinnubrögðum og nái þannig árangri. Flensborgarskólinn áformi að styrkja góða ímynd skólans með því að vera framsækinn skóli, fjölbreyttur og frjór, veita áfram góða stoðþjónustu og skapa umhverfi sem hvetur nemendur til dáða. Þrekvirki var unnið í skólastarfinu í vetur og ber þar að þakka þrautseigju starfsfólks og mikla aðlögunarhæfni nemenda enda sú kúvending sem varð á kennsluháttum án nokkurrar hliðstæðu. Nú horfi vonandi til betri tíðar og er undirbúningur fyrir næsta skólaár hafinn.

Óskar Atli Magnússon, dúx skólans vorið 2021

Júlía Rós Auðunsdóttir, semídúx skólans vorið 2021

Kolbrún María flutti ávarp fyrir hönd stúdenta