- Skólinn
- Námið
- Þjónusta
- Starfsfólk
- Skólaskjár
- Enska
- Leiðbeiningar
- Spurt og svarað
Flensborgarskólinn í Hafnarfirði brautskráði í gær 96 nemendur. Þeir útskrifuðust af fimm brautum skólans; félagsvísinda-, raunvísinda-, viðskipta- og hagfræði-, starfsbraut og opinni braut. 37 þeirra luku einnig námi á íþróttaafrekssviði skólans.
Hæstu einkunn hlaut Adele Alexandra Bernabe Pálsson með 9,63 en hún hlaut Menntaverðlaun Háskóla Íslands fyrir framúrskarandi árangur á stúdentsprófi. Einnig hlaut hún styrk frá Rio Tinto fyrir góðan árangur í raungreinum og, frá skólanum, viðurkenningu fyrir góðan árangur í ensku, spænsku, stærðfræði, íþróttagreinum og íslensku.
Andrea Marý Sigurjónsdóttir var semidúx Flensborgarskólans með einkunnina 9,52. Hún fékk verðlaun frá Háskólanum í Reykjavík fyrir frábæran námsárangur í raungreinum. Einnig var hún verðlaunuð fyrir góðan námsárangur í spænsku, stærðfræði og íþróttafræði.
Sandra Dögg Kristjánsdóttir var þriðja hæst, með 9,29 í meðaleinkunn. Hún er einnig afrekskona í íþróttum og stúdent af raunvísindabraut og hlaut viðurkenningar fyrir mjög góðan árangur í íslensku og íþróttafræðum.
Þrír starfsmenn voru kvaddir eftir farsælan feril en það voru þau Friðrik Olgeir Júlíusson, stærðfræðikennari, María Hrafnsdóttir, bókasafns- og upplýsingafræðingur og Tamara Soutourina, enskukennari.
Í ræðu sinni kom Erla Ragnarsdóttir, skólameistari, inn á skólastarf þá og nú en 60 ára gagnfræðingar heimsóttu gamla skólann sinn á dögunum. Margt hefur breyst í tímans rás en það sem ætíð hefur einkennt Flensborgarskólann er hinn jákvæði skólabragur, manngæska og vinarþel enda er haft að leiðarljósi í skólastarfinu að glæða sálargáfurnar, líkt og það er orðað í fyrstu reglugerð um skólann frá 1882. Kennarar gegna þar lykilhlutverki og eru mörgum eftirminnilegir, nú sem endranær. Þeim var til dæmis þakkað í gær fyrir að vera ávallt reiðubúnir til að styðja við nemendur, bæði í leik og starfi, og sýna þeim einlægan áhuga, eins og nýstúdínan Emilía Ósk Steinarsdóttir kom inn á ræðu sinni.
Við óskum nýstúdentum og fjölskyldum þeirra innilega til hamingju með áfangann.
Adele Alexandra Bernabe Pálsson og Andrea Marý Sigurjónsdóttir
Emelía Ósk Steinarsdóttir flutti ræðu fyrir hönd nýstúdenta
Fleiri myndir frá deginum er að finna á Facebook-síðu skólans.