Brautskráning vor 2023

Brautskráning stúdenta frá Flensborg 27. maí 2023

 

Flensborgarskólinn í Hafnarfirði brautskráði í dag 90 nemendur. Þeir útskrifuðust af fimm brautum skólans; 8 af félagsvísindabraut, 24 af raunvísindabraut, sjö af viðskipta- og hagfræðibraut, fimm af starfsbraut og 46 af opinni braut. 35 þeirra luku einnig námi á íþróttaafrekssviði skólans.

Hæstu einkunn hlaut Krummi Týr Gíslason með 9,88 en hann hlaut Raungreinaverðlaun Háskólans í Reykjavík fyrir framúrskarandi árangur í raungreinum á stúdentsprófi. Krummi Týr hlaut einnig styrk frá Rio Tinto fyrir góðan árangur í raungreinum, verðlaun frá skólanum fyrir framúrskarandi árangur í íslensku, viðurkenningu frá Efnafræðifélagi Íslands sem veitt eru nemendum sem sýna afburða árangur í efnafræði og frá stærðfræðafélaginu fyrir góðan árangur í stærðfræði.

Erla Rúrí Sigurjónsdóttir var semidúx Flensborgarskólans með einkunnina 9,86. Hún fékk Menntaverðlaun Háskóla Íslands fyrir framúrskarandi árangur á stúdentsprófi. Erla Rúrí fékk einnig verðlaun frá skólanum fyrir framúrskarandi árangur í íslensku, ensku og félagsgreinum. Hún hefur einnig sinnt trúnaðarstörfum fyrir nemendur sem formaður jafnréttisráðs og hagsmunaráðs og fær fyrir það þakklætisvott frá skólanum.

Tveir starfsmenn voru kvaddir eftir farsælan feril en það voru þær Hafdís Ólafsdóttir, matreiðslumeistari og Þórunn Andrésdóttir, sérkennari. Hafdís hefur veitt hefur mötuneyti skólans forstöðu síðan árið 2001 og einnig sinnt matreiðslukennslu innan skólans. Þórunn hefur verið sérkennari á starfsbraut síðan árið 2005 og sinnt störfum sínum þar af alúð.

Í ræðu sinni kom skólameistari inn á mikilvægi mannúðar á tímum sem þessum. Áhersla hefði verið lögð fræðslu um jafnréttismál á skólaárinu sem er að líða, og samtal um meðal annars hinseginleikann, feðraveldið, fordómum og rasisma og þá sér í lagi hvernig hann birtist í íslensku samfélagi. Skólameistari vék að áskorunum framtíðarinnar í máli sínu en nýting nýrrar tækni í námi er þar á meðal. Eitt af fyrstu verkefnum Flensborgarskólans á næsta skólaári verður að læra að nýta gervigreind í kennslu og móta sér stefnu um notkun hennar í námi. Þá ræddi skólameistari áform menntamálaráðherra um sameiningar og/eða samstarf framhaldskólanna. Hún hvatti til þess að hlustað yrði á sjónarmið allra hagaðila og að vandað yrði til allrar þeirrar vinnu sem væri búið að hrinda af stað. Að gætt yrði að gæðum náms og innleiðingar farsældarþjónustunnar sem hjá mörgum skólum er langt á veg komin og ef að aðgerðirnar snúast um hagræðingar þá benti skólameistari á þá hagræðingu sem felst í því að sameina ekki Flensborgarskólann við Tækniskólann en með minni nýbyggingu Tækniskólans sparast um 4-5 milljarðar. Þar með biði Flensborgarskólinn betur en fjármálaráðuneytið og þannig geti ráðherra barna- og menntamála komið til móts við breyttar áherslur í menntamálum almennt og stutt betur við skólaþjónustu. Að lokum hvatti skólameistari nemendur til að stuðla að eigin farsæld með því að temja sér hugarró og að veita nærumhverfinu athygli, fjölskyldu og vinum, og einbeita sér að jákvæðu hugarfari.  Einnig að nota það veganesti sem stúdentspróf frá Flensborgarskólanum er til aukinnar menntunar og sköpunar verðmæta fyrir samfélagið og í krafti þess að taka þátt í að efla traust í landinu til aukinnar þekkingar og lífsgæða.

Erla Rúrí semidúx ávarpaði viðstadda fyrir hönd útskriftarhópsins. Í ræðu sinni sagði Erla Rúrí gagnkvæmt traust og samvinnu einkenna skólastarfið við Flensborgarskólann og að aldrei þyrftu nemendur að leita langt eftir aðstoð. Hún sagði einnig að í samtölum sínum við samnemendur hefði komið í ljós að það væru ekki stærstu viðburðirnir eða erfiðustu prófin sem stæðu upp úr verunni við skólann heldur væru það tengslin sem nemendur mynduðum hvert við annað, skemmtilegu áfangarnir og litlu hlutirnir eins og spjallið á göngunum. Að hennar mati lýsti þetta andanum í skólanum mjög vel því hér væri alltaf eitthvað að gerast og hlátur og skondnar samræður fylltu stofur skólans.

Til hamingju með daginn kæru nýstúdentar!