- Skólinn
- Námið
- Þjónusta
- Starfsfólk
- Skólaskjár
- Enska
- Leiðbeiningar
- Spurt og svarað
Frábæra gjöf foreldrafélagsins til nemenda skólans var formlega tekin í notkun í gær þegar oddviti spilaði fyrsta pool leikinn gegn fulltrúa foreldraráðsins. Það er von okkar að vel verði gengið um þessa veglegu gjöf en foreldrafélagið gaf nemendum einnig tvö taflborð sem búið er að stilla upp í matsal.
Hvað varðar umgengni þá er það ekki eingöngu pool borðið sem þarf að ganga vel um, það þarf líka að huga að matsalnum. Langflestir nemendur ganga frá eftir sig en það má alltaf gera betur. Sérstaklega hvað varðar flokkun og frágang á úrgangi. Við erum umhverfisvænn skóli og leggjum áherslu á flokkun. Nýjar flokkunartunnur hafa verið keyptar í matsalinn með fleiri flokkunarmöguleikum og verður vonandi til þess að nemendur hjálpi enn betur til í að huga að umhverfinu. Hjálpumst að við að halda skólanum okkar hreinum og snyrtilegum og göngum vel um.
Við höfum tekið upp skráningu í mat í hádeginu til að sporna enn frekar gegn matarsóun og nú skrá bæði starfmenn og nemendur sig í heitan mat rafrænt. Skráningu nemenda er að finna á heimasíðu skólans undir hnappnum „Matarskráning nemenda“. Valmöguleikar birtast þar í skjali, alltaf einn grænmetisréttur og einn hefðbundinn auk þess sem salatboxin eru í boði alla daga. Nýr matseðill birtist á hverjum fimmtudegi og þá er hægt að fara inn og velja sér af matseðil vikunnar. Þó nemendur skrái sig ekki í heitan mat er mötuneytið að sjálfsögðu áfram opið með hefðbundið vöruframboð.
Þá viljum við benda á að við tókum nýlega appelsínusafa úr sölu í mötuneyti vegna ofnæmis nemanda. Í því samhengi ítrekum við að hér er blátt bann við öllu sem inniheldur sítrus. Dæmi um það eru einmitt appelsínur, sítrusdrykkir, mandarínur og fleira af þessari ætt. Vonandi verða nemendur okkar duglegir að taka tillit til þessa og sýna samstöðu.
Okkur þykir ástæða til þess að minna á að öll notkun tóbaks er bönnuð í og við Flensborgarskólann. Þar er vape og notkun niktótínpúða meðtalin en starfsmenn okkar hafa þurft að hafa afskipti af nemendum upp á síðkastið hvað þetta varðar. Púðarnir eru sjáanlegir hér um allt hús og virðast ekki alltaf rata í tunnurnar.
Nú styttist heldur betur í vetrarfríið okkar en skólinn verður lokaður þá, 24. og 25. október. Valvika hefst svo í kjölfarið þann 26. október samkvæmt skóladagatali. Nýnemar velja ekki en eldri nemar geta fengið stuðning við valið sem verður auglýstur þegar nær dregur.
Hér má sjá póst sem aðstoðarskólameistari sendi nemendum og forráðamönnum þeirra í gær.