Erfiðast að læra stærðfræði í fjarnámi

Við tókum þær Karólínu Lýðsdóttur og Andreu Arnþórsdóttur tali þar sem þær sátu við eitt af háborðunum, eins og þau eru kölluð, að undirbúa sig fyrir næstu kennslustund. Okkur lék forvitni á að vita hvernig gengi í náminu á þessum skrýtnu tímum.

Andrea er nýnemi í skólanum og segir að sér gangi oftast vel en erfitt sé að vinna verkefni upp á eigin spýtur, þ.e. án þess að kennarinn sé til taks. Þá segir hún að stundum eigi hún í erfiðleikum með að muna eftir öllum verkefnum sem eiga það til að hrannast upp. Þá reyni á skipulagshæfileikana.

Andrea bætir við að það væri miklu skemmtilegra að vera meira í skólanum því erfitt sé að kynnast nýju fólki í þessum aðstæðum.

Karólína er sammála því sem vinkona hennar segir um mikilvægi þess að skipuleggja sig vel og telur að hún sjálf geti gert betur í þeim efnum. Hún er á öðru ári og segir verkefnin stundum safnast upp. Það kemur fyrir að hún þurfi að læra á nóttunni, enda er hún bæði að vinna í Ísbúð Vesturbæjar og svo æfa þær Andrea hópfimleika með Stjörnunni.

Karolína talar sérstaklega um að erfitt sé að læra stærðfræði í fjarnámi. Nemendur þurfi að reiða sig á tölvupóstinn til að fá aðstoð og stundum sé töluverð bið eftir svari.

Báðar minnast þær á að það sé oft meira álag í byrjun viku en þær stöllur eru sammála um að besta ráðið sé að klára verkefnin strax en ekki að fresta þeim fram á síðustu stundu.