Skólastarfi er að mestu lokið þetta skólaárið. Verið er að ganga frá helstu vorverkum, undirbúa næstu önn, þar með að taka á móti nýjum nemendum. Skólinn er einnig í óða önn við að ljúka grænum skrefum og fékkst fullgilding fyrstu tveggja skrefanna á dögunum. Var því vel fagnað á starfsmannafundi á dögunum. Að auki var haldið í Skógrækt Hafnarfjarðar til þess að kolefnisjafna samgöngur starfsmanna en afar brýnt er að leggja lóð á vogarskálarnar til að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga. Gróðursettar voru birki og reyniplöntur á svæði í Langholtsdal en þar hafði sina brunnið og því nægt tilefni til að hefjast handa og rækta upp á nýtt. Eins og sjá má myndunum voru starfsmenn Flensborgarskóla afar liðtækir í gróðursetningu og tilhlökkun ríkir með að fylgjast með sprettu trjánna.
Við sama tilefni sýndi nemendafélag skólans viðleitni til að kolefnisjafna nemendur og styrkti Votlendissjóð um 68.000 krónur. Var því vel tekið og veitti Einar Bárðarson styrknum móttöku. Af því tilefni sagði hann þennan óvænta liðsauka Flensborgara við að draga úr losun gróðurhúslofttegunda afar mikilvægan og sýndi umhverfisvitund ungs fólks á Íslandi í verki. Einnig gladdist hann yfir áskorun NFF en af þessu tilefni skoraði Ásbjörn Ingi Ingvarsson, oddviti nemendafélagsins, á nemendafélag FG með það að markmiði að fleiri framhaldsskólar sýndu ábyrgð í samfélagsmálum.