Flensborgarar í skólaheimsóknum

Starfsmenn Flensborgarskólans nýttu vel starfsdaga að útskrift lokinni og lögðu land undir fót. Ferðinni var heitið á Vestfirði með stuttri viðkomu í Borgarnesi. Tilgangur ferðarinnar var að fræðast og kynnast skólastarfi í öðrum skólum auk þess að lyfta hópnum upp eftir langan vetur í kennslu. Fyrsta stopp var í Menntaskólanum í Borgarnesi þar sem Bragi skólameistari tók vel á móti hópnum. Signý, verkefnastjóri skólaþróunar, kynnti fyrir okkur skólaþróun í MB sem hefur verið afar farsæl og hlaut hvatningarverðlaun Íslensku menntaverðlaunanna árið 2022. Við skólann er unnið að skólaþróunarverkefninu Menntun fyrir störf framtíðar sem snýr að því að undirbúa nemendur sem best undir líf og starf með því að leggja áherslur á nýsköpun, lausnaleit, hönnunarhugsun og þrautseigju. Þar hefur verið innleitt svokallað Lífsnám, svipað og það sem við í Flensborg köllum Hámark, auk þess sem stafræn hönnun og miðlun hefur verið leidd inn í alla áfanga. Heimsóknin var afar áhugaverð, skólahúsnæðið mikið augnayndi og hópurinn hélt glaður af stað vestur eftir gott stopp í Borgarnesi og ljúfar veitingar.

Á Ísafirði tóku skólastjórnendur menntaskólans vel á móti hópnum. Við vorum svo heppin að fá að gista á heimavist skólans sem umbreyttist svo í Eddu hótel að heimsókn okkar lokinni. Við áttum virkilega góðar stundir með starfsfólki skólans, bárum saman bækur okkar í kennslu og hlýddum á áhugaverð erindi, m.a. um ChatGPT og EKKO málin sem snúa að því að vinna saman gegn einelti, áreitni og ofbeldi. Hópurinn heimsótti einnig Lýðskólann á Flateyri og fékk kynningu af þeim námsbrautum sem þar eru kenndar og helstu áherslur og áskoranir sem forstöðumenn glíma við. Við skólann eru kenndar tvær námsbrautir, innibraut og útibraut eins og þær eru kallaðar. Útibrautin er fyrir þá sem dreymir um að upplifa náttúruna, ferðast um hana og kanna á öruggan hátt á öllum tímum ársins. Innibrautin er sniðin fyrir þá sem vilja öðlast þekkingu og færni í skapandi greinum og nemendur búa til portfolio fyrir áframhaldandi nám við t.d. listaskóla víða um heim.

Veðrið lék við okkur á ferðalaginu og var víða komið við. Við fengum tækifæri til að dýfa okkur í náttúrulaugina á Reykjanesi, gengum upp að Dynjanda og fræddumst enn frekar um ævi og störf Jóns Sigurðssonar á safni tileinkuðu honum að Hrafnseyri við Arnarfjörð.

Ferðin var í senn bæði lærdómsrík og skemmtileg, setti góðan endapunkt á skólaárið og var jafnframt gott upphaf að góðu sumarfríi.