- Skólinn
- Námið
- Þjónusta
- Starfsfólk
- Skólaskjár
- Enska
- Leiðbeiningar
- Spurt og svarað
Flensborgarskólinn hóf í upphafi árs 2020 þátttöku í verkefni Grænfánans á vegum Landverndar. Í dag, 1. desember, var fáninn dreginn að húni við skólann. Umhverfisnefnd skólans hefur unnið hörðum höndum að náttúruvernd og miðlun umhverfisvitundar síðastliðna mánuði.
Í máli Ernu Salóme Þorsteinsdóttur, fulltrúa nemenda í umhverfisnefndinni, kom fram að nefndin hafi valið náttúruvernd sem þema haustannarinnar og var m.a. sett af stað könnun um viðhorf nemenda til náttúrverndar. Þá hafi verið unnið að námsefni og tengingu við aðalnámskrá. Einnig var unnið að umhverfisstefnu skólans og vakin athygli á friðlýstum svæðum í næsta nágrenni við skólann.
Erla Sigríður Ragnarsdóttir, skólameistari, ávarpaði líka samkomuna. Hún þakkaði nefndinni og kennurum fyrir elju og dugnað því það sé ekki hægur vandi að vinna að verkefni sem þessu í slíku ástandi.
Um leið og Katrín Magnúsdóttir, fulltrúi frá Landvernd, óskaði Flensborgarskólanum til hamingju með viðurkenninguna og afhenti fánann eftirsótta, við hátíðlega athöfn, minntist hún á að um sé að ræða alþjóðlega viðurkenningu sem finna má í hvorki færri né fleiri en 68 löndum. Auk þess séu um 59 þúsund skólar víða um heim þátttakendur í verkefninu.
Hún sagði óvenjulegt að það tæki einungis um ár að öðlast þessa viðurkenningu frá því umsókn er lögð inn, eins og í tilviki Flensborgar. Katrín hrósaði nemendum fyrir að gera náttúruvernd að þema í nefndarvinnunni, með áherslu á nærumhverfið í tengslum við verndun svæða.
Í tilefni dagsins fluttu Jói Pé og Króli tónlistaratriði eftir að fáninn var dreginn að húni og viðstaddir drógu niður grímurnar augnablik í hvassviðrinu til að gæða sér á kakó og smákökum.
Fréttablaðið fjallaði um viðburðinn og tók nokkra nemendur tali.