Fréttir úr skólastarfi - námsmatsdagur á morgun, öflugt félagslíf nemenda, Lífshlaupið og fleira

Skólameistari sendi nemendum og forráðamönnum nemenda yngri en 18 ára póst í dag með helstu upplýsingum um það sem framundan er.

 

Kæru nemendur og foreldrar/forráðamenn

Á morgun, fimmtudaginn 15. febrúar verður svokallaður námsmatsdagur. Það þýðir að engin kennsla fer fram þennan dag en nemendur skólans geta nýtt daginn til að vinna upp verkefni, læra fyrir næsta próf eða undirbúa sig fyrir næstu viku. Það er von okkar að dagurinn nýtist öllum, ekki síst til hlaða batteríin. Kennt verður samkvæmt stundatöflu föstudaginn, 16. febrúar.

 

Félagslíf nemenda er öflugt þessa dagana. Morfís lið skólans komst í fjögurra liða úrslit á dögunum eftir frækinn sigur á Fjölbrautaskólanum í Ármúla. Æfingar hjá leikfélaginu halda áfram en fyrirhugað er að frumsýna leikverk ársins í byrjun aprílmánuðar. Þá var nýafstaðin íþróttavika öflug. Keppt var í hinum ýmsu greinum, svo sem pílukasti og bekkpressu og Flensborgarskólinn hóf keppni í Lífshlaupinu, bæði sem skóli og vinnustaður og það er enn hægt skrá sig til leiks, sjá nánar hér. Keppnin er hörð en aðalatriðið er að taka þátt, hreyfa sig og næra andann. Það er auðvitað mikilvægt alla daga, burtséð frá Lífshlaupinu, sérstaklega þegar líður á önnina og námið verður æ umfangsmeira. Í því samhengi minnum við á miðannarmat. Opnað verður fyrir það mánudaginn 4. mars og því er afar mikilvægt að næstu dagar og vikur nýtist vel til verkefnaskila og próftöku. Við minnum á alla þá þjónustu sem skólinn veitir til aðstoðar við nemendur (námsráðgjöf, bókasafn, ritver, raungreinaver, jafningjakennsla, hjúkrunarfræðingur o.fl.). Allar nánari upplýsingar má finna hér á heimasíðu skólans, endilega nýtið ykkur þessi úrræði til að hjálpa ykkur í náminu, ef eitthvað er.

 

Að lokum. Skólinn tekur þátt í Íslensku æskulýðsrannsókninni, rannsókn á menntun, heilsu og líðan, lífsgæðum og félagslegri stöðu ungs fólks á Íslandi. Fyrirlögn fer fram í næstu viku og foreldrar og/eða forráðamenn yngri en 18 ára fá bréf á eftir með nánari upplýsingum um rannsóknina og skilgreint samþykki til að taka þátt. Hvet ég hér með ykkur öll, kæru nemendur, til að gefa ykkur tíma og taka þátt í könnunni. Þannig getum við mögulega stutt betur við ungt fólk á framhaldsskólastiginu og þar með bæta lífsgæðin, til lengri tíma litið.

 

Bestu kveðjur til ykkar og nýtið morgundaginn til góðra verka,