Fréttir úr skólastarfi - skemmtivika, Morfís, stuðningur við nemendur og uppsópsdagur fimmtudaginn 9. febrúar

Skólastarfið, nú þegar komið er fram í 6. viku vorannar, hefur gengið vel, þrátt fyrir miklar umgangspestir og umhleypinga í veðri síðustu daga. Mikilvægt er að veikindi séu tilkynnt í INNU jafnóðum og við minnum á  mikilvægi þess að halda vel utan um námið, m.a. að huga vel að verkefnaskilum og hlutaprófum og vera í góðu samráði við kennara.

Eins og kom fram í síðasta bréfi þá býður Flensborgarskólinn upp á ýmislegt til að styðja við nemendur, sbr. raungreinaver og ritver en það er til dæmis opið fjóra daga vikunnar. Þar geta nemendur fengið stuðning og leiðsögn kennara við heimanámið, frágang á verkefnum eða aðstoð við ritgerðarskrif. Þar er einnig hægt að taka forfallapróf. Allar nánari upplýsingar um þetta má finna á heimasíðu skólans, en þar er einnig hægt að bóka tíma hjá nemendaþjónustu skólans, ef frekari aðstoðar í náminu er þörf.

Fimmtudagurinn 9. febrúar er svokallaður námsmatsdagur og/eða uppsópsdagur. Þetta þýðir að engin kennsla fer fram þennan dag en nemendur skólans geta nýtt daginn til að vinna upp verkefni, læra fyrir næsta próf eða undirbúa sig fyrir næstu viku. Það er von okkar að dagurinn nýtist öllum, ekki síst til hlaða batteríin.

Núna er verið að gera rannsókn innan skólans á stöðu og viðhorfi nemenda með íslensku sem annað mál. Markmið rannsóknarinnar er að kanna hvort nemendur þekki þá aðstoð sem skólinn býður upp  hvort nemendur nýti sér hana og hvað má bæta í námsumhverfinu. Könnuninni lokar annað kvöld þannig að nú er um að gera að taka þátt og svara hér. Þá er gaman að segja frá því að skólinn er kominn í samstarf við sjö aðra íþróttaafreksskóla í Evrópu og er hugmyndin að nemendur á íþróttaafrekssviði taki þátt í rannsókn í apríl er varðar gæði náms og sveigjanleika vegna íþróttaiðkunar nemenda.

Og stutt í blálokin – nú stendur yfir skemmtivika NFF með ýmsum uppátækjum, svo sem pool-móti, pizzusölu, hoppukastala og fleiru. Þá keppir lið skólans í 16 liða úrslitum í Morfís í kvöld. Andstæðingurinn er MK og hefst keppnin kl. 18:00. Keppnin fer fram hér í skólanum – allir að mæta og áfram Flensborg!

 

Hér má sjá bréf sem skólameistari sendi nemendum fyrr í dag.