Fréttir úr skólastarfinu - afmæli skólans, FG-Flensborgardagur, miðannarmat, hjúkrunarfræðingur skólans ofl

Tíminn líður og við erum komin vel af stað í skólastarfinu. Nýr mánuður er að bresta á og því ýmislegt framundan í skólastarfinu. Á morgun stendur til að fagna í tilefni afmælis skólans þann 1. október, sem að þessu sinni lendir á sunnudegi. Ætlunin er að bjóða nemendum og starfsfólki upp á kökusneið í tilefni dagsins auk þess sem styrkur úr Flensborgarhlaupinu verður afhentur fulltrúa CP félagsins í hádeginu. Eftir það verður boðið upp á Spurt og svarað þar sem skólameistari ásamt Perlu Eyfjörð, oddvita NFF, munu spjalla við nemendur og svara helstu vangaveltum þeirra um félagslífið og fleira tengt skólalífinu.

 

Síðar í mánuðinum verður FG-Flensborgardagurinn þar sem Flensborgarar etja kappi við nemendur FG í íþróttahúsinu í Strandgötu. Þá er skemmtivika framundan og það er gaman að segja frá því að undirbúningur er hafinn fyrir Gettu betur keppnir ársins. Einnig er Morfís lið skólans að verða til og þá er einnig kennsla hafin í söng- og raddþjálfun og leiklist.

 

Við minnum á miðannarmat um miðjan októbermánuð þannig að það er um að gera að halda vel utan um verkefnaskil og fleira á næstu vikum. Í framhaldi af miðannarmati er síðan fjarvistaryfirlit sent út og þá er námsstaðan tekin hjá þeim nemendum sem þurfa þykir.

Þá vekjum við athygli á þjónustu hjúkrunarfræðings en Hulda Björg Óladóttir er hjúkrunarfræðingur skólans á þessu skólaári. Hulda Björg er með aðstöðu í Koti (á móti H202) og tekur á móti nemendum þrjá daga vikunnar, sjá nánar um opnunartíma hér. Ekki þarf að panta tíma, heldur mega nemendur koma við, ef eitthvað er.