Fréttir úr skólastarfinu - Flensborgarhlaup, heimanám og stuðningur við það

Hér má sjá bréf sem skólameistari sendi nemendum og forráðamönnum í gær, 18. september 2023.

 

Kæru nemendur og foreldrar/forráðamenn

 

Áfram heldur skólastarfið og er nú fimmta vikan á önninni runnin upp. Ég vona að öllum gangi vel í náminu og hvet jafnframt alla til að vera vakandi yfir helstu skilum á verkefnum og prófum. Þá minni ég einnig á mikilvægi þess að mæta vel í tíma og fylgjast vel með í INNU. Allt það sem fer fram í kennslustundum má til dæmis bæði sjá í námsáætlunum áfanganna og undir flipanum Heimanám í hverjum áfanga fyrir sig.

 

Nokkur atriði sem ég vil minna á:

 

Flensborgarhlaupið fer fram á morgun og er megin tilgangur þess að hreyfa sig – ganga, hlabba, skokka eða hlaupa – og styðja gott málefni. Allur ágóði hlaupsins fer til verkefnisins Ungt fólk með CP hreyfihömlun – jafningjafræðsla og stuðningur á vegum CP félagsins á Íslandi. Enn er hægt að skrá sig á hlaup.is og ég hvet hér með alla sem tök hafa á að taka þátt að koma og vera með! Það verður líf og fjör á torginu fyrir framan skólann, en allar nefndir nemendafélagsins koma að brautarvörslu og sjá um stemninguna fyrir og eftir hlaup. 

 

Stærðfræði- og raungreinaver, á þriðjudögum strax að lokinni kennslu í H202 og í hádeginu á miðvikudögum og fimmtudögum í sömu stofu. Endilega nýtið ykkur þennan stuðning í námi. Þá er ritverið opið þrjá daga vikunnar, sjá allar nánari upplýsingar hér.

 

Hafið það sem allra best,

 

Erla