Fréttir úr skólastarfinu - fundur með foreldrum nýnema, Flensborgarhlaup og nýnemadansleikur

Skólahald heldur áfram og er margt á döfinni á næstu vikum. Framundan er nýnemaballið, fyrsti dansleikur vetrarins, en það fer fram í íþróttahúsinu við Strandgötu fimmtudaginn 7. september. Miðasala hefst í hádeginu í dag og fer hún fram á netinu. Húsið opnar kl. 22:00 og lokar kl. 01:00. Fjöldinn allur af helstu skemmtikröftum landsins mun stíga á stokk í íþróttahúsinu og verður án vafa mikið fjör. Við minnum á alla góða siði á Flensborgarskólaböllum og að ölvun ógildir miðann.

Þá er undirbúningur hafinn fyrir árlegt Flensborgarhlaupið og að þessu sinni rennur allur ágóði hlaupsins í verkefnið Ungt fólk með CP hreyfihömlun – jafningjafræðsla og stuðningur á vegum CP félagsins á Íslandi. Hægt er að hlaupa 5 km og 10 km eða taka þátt í léttu 3ja km skemmtiskokki eða göngu. Hlaupið fer fram þann 19. september næstkomandi kl. 17:30 og eru hér með allir nemendur skólans og aðstandendur þeirra hvattir til að taka þátt, þannig eflum við heilsueflandi samfélag Flensborgarskólans og styrkjum um leið gott málefni. Skráning fer fram á hlaup.is.

Þá vekjum við athygli á því að stærðfræði- og raungreinaverið fer af stað á morgun kl. 15:45, eða strax að lokinni kennslu. Þá er ritverið opið, nemendum til stuðnings í verkefnavinnu, þrjá daga vikunnar, sjá upplýsingar á heimasíðu og á skjám skólans.

Til foreldra nýnema:

Fundur með foreldrum nýnema verður haldinn í Hamarssal á morgun, þriðjudaginn 5. september kl. 17:00. Á fundinum verður farið yfir það helsta sem tengist skólastarfinu en einnig gefst tækifæri til að hitta bekkjarkennara og fá innsýn í námið á fyrsta ári. Fulltrúi foreldraráðs Flensborgarskólans og fulltrúar nemendafélagsins ávarpa fundinn. Boðið verður upp á létta hressingu.

 

Hér er bréf sem skólameistari sendi nemendum og foreldrum fyrr í dag.