Fréttir úr skólastarfinu - margþætt þjónusta skólans við nemendur, fjör í félagslífi og fleira

Kæru nemendur og foreldrar/forráðamenn.  

 

Skólastarfið gengur vel og er nú flest allt komið í fastan farveg fyrir önnina. Það eru nokkur atriði sem má minna á er varðar þá þónustu sem skólinn veitir nemendum:

 

Bóksala nemenda er opin í hádeginu, út vikuna. Þar er líka verið að selja sérmerktar Flensborgarpeysu, endilega kíkið þar við og mátið.

Ritver  – þar er hægt að fá stuðning við heimanám og verkefnavinnu. Ritverið er staðsett í hópvinnuherbergi skólans og er opið alla daga vikunnar nema föstudaga, sjá nánar um opnunartíma á heimasíðu skólans.

Raungreinaver – þar geta nemendur fengið aðstoð með verkefni sín í raungreinum og stærðfræði. Raungreinaverið er opið á þriðjudögum frá kl. 15:50 – 16:50 og í hádeginu á fimmtudögum.

Nemendaþjónustu skólans -  Námsráðgjafar skólans, þær Helga og Sunna, aðstoða nemendur við skipulag á námi og eru til leiðsagnar varðandi öll þau mál sem geta haft áhrif á námsframvindu og líðan nemenda. Rannveig Klara, nemenda- og kennsluráðgjafi sér um að halda utan um greiningar nemenda og sérúrræði í námi.

Hjúkrunarfræðingur í viðtalsherbergi, á móti stofu H-201 (jarðfræðistofa). Jórunn hjúkrunarfræðingur er með viðveru á þriðjudags- og miðvikudagsmorgnum og eftir hádegi á mánudögum og veitir nemendum ráðgjöf er er varðar geðheilbrigði, kynheilbrigði, félagslegan vanda og almennt heilbrigði.

Jafningjakennsla – nýr fundartími í stundatöflu býður upp á ýmislegt, m.a. aðstoð við heimanám nemenda í stærðfræði. Fyrsta jafningjakennslan fer fram í dag, miðvikudaginn 17. janúar í stofu M309, kl. 12:35 – 13:20. Endilega nýtið ykkur þessa ókeypis aðstoð í stærðfræði.

Heilindi í námi. Kíkið endilega á stefnu skólans um heilindi í námi og helstu varnaðarorð er varðar notkun gervigreindar, svindl á prófi, ranga heimildanotkun í ritgerðum o.fl.

Hvað varðar veikindi þá er mikilvægt að tilkynna þau samdægurs á INNU og staðfesta þau í framhaldinu, annað hvort með staðfestingu foreldris eða læknisvottorði. Einnig, og ávallt, er mikilvægt að fylgjast vel með náminu á INNU og vera í sambandi við kennara, ef eitthvað er. Þá eru á heimasíðu skólans nokkrar hugleiðsluæfingar, ef þörf er á að draga andann og ná einbeitingu fyrir lestur og/eða verkefnavinnu eða auka vellíðan í lífinu almennt,  sjá hér. Þá er Kotið, slökunarherbergi fyrir nemendur, opið alla daga á skólatíma. 

Gettu betur lið skólans komst 16 liða úrslit keppninnar og fara leikar fram annað kvöld. Andstæðingar okkar að þessu sinni verða nágrannar okkar úr Garðabænum og við segjum bara áfram Flensborg, alltaf, alla leið! Svo má líka segja frá því að undirbúningur er hafinn fyrir fyrstu Morfís keppni vetrarins, leikrit ársins, íþróttaviku sem fer fram í byrjun febrúar, Lífshlaupið, og margt fleira. Meira um þetta síðar.