Kæru nemendur og foreldrar,
Nokkur atriði til áminningar um það helsta í skólastarfinu:
Búið er að birta miðannarmat og er afar mikilvægt að nýta það vel til að taka stöðuna í áföngum annarinnar. Ef eitthvað þarfnast nánari skoðunar og/eða stuðnings þá minni ég á nemendaþjónustu skólans, sjá allar upplýsingar á heimasíðu skólans. Fjarvistayfirlit verður síðan sent út síðar í dag en ef leiðrétta þarf óstaðfest veikindi nemenda þá þarf að gera það hið allra fyrsta. Það er gert með því að hafa samband við skrifstofu skólans.
Nýnemabekkirnir fara í leikhúsferð á miðvikudaginn. Ferðin er hluti af verkefninu Bekkjarkerfi á fyrsta ári og mikilvægi félagstengsla í framhaldsskóla og er það von mín að leiksýningin Tóm hamingja bæti og kæti og styðji við félagslíf nemenda í Flensborg.
Í næstu viku hefst svo valvika fyrir eldri nemendur skólans. Þá verður búið að setja upp leiðbeiningar á heimasíðunni og boðið verður upp á aðstoð við valið á Græna torginu frá og með mánudeginum 28. október.
Þá vil ég minna á haustfrí skólans framundan, þ.e. dagana 24. - 25. október. Það er von mín að fríið nýtist öllum vel, ekki síst til að hlaða batteríin og til undirbúnings fyrir lokasprettinn á önninni.
Hafið það sem allra best!
Með bestu kveðju,
Erla Ragnarsdóttir