Fréttir úr skólastarfinu - páskafrí framundan, Framhaldsskólapúlsinn, árshátíð NFF og fleira

Þá er páskafrí að hefjast en kennsla hefst aftur samkvæmt stundatöflu miðvikudaginn 3. apríl. Þá má segja að lokaspretturinn í náminu hefjist og því er mikilvægt að hvíla sig og endurnæra sem best í fríinu.

Skólinn hefur tekið þátt í rannsóknum Skólapúlsins til að kanna líðan nemenda, námsumhverfi þeirra og virkni í námi og fer könnun af stað þann 2. apríl næstkomandi. Hér er upplýsingabréf um fyrirkomulag könnunarinnar í ár, spurningarlistinn er rafrænn og munu nemendur fá bæði tölvupóst með öllum helstu leiðbeiningum og sms með eftirfylgni varðandi svörun. Gott væri að sem flestir tækju þátt í rannsókninni, þannig getum við hvað best fylgst með og bætt innra starf skólans og þið, kæru nemendur, eruð hvött til að gefa ykkur nokkrar mínútur til að svara spurningalistanum.

Árshátíð nemenda fer síðan fram 10. apríl, bæði með fræðslu og fjöri á skólatíma en líka með dansleik í Gamla bíói um kvöldið. Þennan dag mun leikfélag skólans einnig halda generalprufu á leikverki ársins, Engin venjuleg ávaxtakarfa, og koma þannig nemendum skólans í stuð fyrir kvöldið. Báðir viðburðir eru vel auglýstir á samfélagsmiðlum NFF og leikfélagsins en við munum einnig kynna dagskrána betur þegar nær dregur.

Hafið það sem allra best og gleðilega páska!