Fréttir úr skólastarfinu - raungreinaver, núvitund og afmæli skólans

Frá og með næsta þriðjudegi er nemendum boðið upp á vikuleg raungreinaver, en þar er hægt að fá aðstoð í stærðfræði og raungreinum nemendum að kostnaðarlausu. Fyrsti tíminn verður þriðjudaginn 28. september kl. 15:45-16:45 í stofu H202.  Þá er mikilvægt að minna á ritver skólans sem unnið er í samstarfi við bókasafnið. Þar gefst nemendum tækifæri til að fá aðstoð við verkefnavinnu og ritgerðarskrif. Opnunartíma má sjá á heimasíðu skólans.

Skólinn hefur einnig tekið upp á þeirri nýbreytni að bjóða nemendum og starfsfólki upp á hvíldarstund en á þriðjudögum í vetur kl. 09:35 er boðið upp á næði til að hlusta á núvitundaræfingu í Koti, hvíldarrými sem staðsett er á móti stofu H202.

Síðustu vikur hafa verið einkar líflegar og er óhætt að segja að vel hafi tekist til bæði í nýnemaferð og á stjórnmálafundi á Degi íslenskrar náttúru. Bestu þakkir til nemendafélagsins og umhverfisnefndar fyrir þeirra framlag á þessum viðburðum.

Framundan er 139 ára afmæli skólans. Formleg afmælisdagskrá fer fram í hátíðarsal skólans í hádeginu fimmtudaginn 30. september en sjálfur afmælisdagurinn, föstudagurinn 1. október, verður svokallaður uppsópsdagur. Þá fellur kennsla niður en nemendur geta nýtt daginn til að vinna verkefni eða til að hlaða batteríin.

Meira um þetta síðar. Þangað til - áfram þið og áfram Flensborg!

 

Hér má sjá bréf sem skólameistari sendi nemendum og forráðamönnum fyrr í dag.