Fréttir úr skólastarfinu - stuðningur og þjónusta við nemendur, nýnemaferð á morgun, kynningarfundur fyrir foreldra nýnema 10. september og fleira

Skólastarfið fer vel af stað og eru nú allir nemendur komnir með fasta stundatöflu. Við leggjum áherslu á að leggja alúð við skólastarfið alveg frá fyrsta degi, þ.e. að mæta vel í tíma, með bækur og ritföng og vinna heimavinnuna jafnt og þétt. Það er gömul saga og ný að skuldbinding í námi skilar betri námsárangri. Í þessu samhengi viljum við minna á ritver skólans sem er opið fjórum sinnum í viku. Þar gefst nemendum tækifæri á að fá aðstoð við verkefnavinnu og ritgerðarskrif. Opnunartíma má sjá á heimasíðu skólans, sjá hér.

Til að styðja enn frekar við nemendur okkar í námi munum við frá og með næsta þriðjudegi bjóða upp á vikuleg raungreinaver, en þar er hægt að fá aðstoð í stærðfræði og raungreinum, nemendum skólans að kostnaðarlausu. Fyrsti tíminn verður þriðjudaginn 3. september kl. 15:45-16:45 í stofu H202. Þarna er á ferðinni einstakt tækifæri til þess að fá aðstoð frá kennurum við að klára að reikna skiladæmi eða undirbúa sig fyrir næsta hlutapróf. Þá er einnig fyrirhugað að bjóða upp á jafningjakennslu í stærðfræði í langa hádegishléinu á miðvikudögum og verður það auglýst nánar síðar.

Ef eitthvað kemur upp á í náminu þá er gott að leita til náms- og starfsráðgjafa skólans, þeirra Helgu og Sunnu, en þær eru ávallt tilbúnar til að leiðbeina nemendum í öllum þeirra málum. Þá er einnig gott að vita af Rannveigu Klörunemenda og kennsluráðgjafa, en hún tekur m.a. við greiningum nemenda vegna námsörðugleika.

Að lokum, það er ýmislegt á dagskrá í skólastarfinu í september. Nú stendur yfir svokölluð nýnemavika þar sem vel er tekið á móti nýnemum skólaársins. Vikan nær hápunkti sínum á morgun, miðvikudaginn 28. ágúst en þá býður NFF öllum nýnemum í nýnemaferð til Þorlákshafnar. Lagt verður af stað frá Flensborg kl. 09:45 og komið heim kl. 15:00. Einnig er verið að skipuleggja nýnemadansleik þann 12. september nk. Skólinn býður því foreldrum nýnema á kynningarfund þriðjudaginn 10. september, kl. 17:00 en þá verður farið yfir það helsta í skólastarfinu og foreldrar fá tækifæri til að hitta m.a. bekkjarkennara og nemendaþjónustuna. Meira um þetta síðar.

Að lokum þetta: Flensborgarhlaupið fer fram 17. september kl. 17:30. Hlaupið er styrktarhlaup, hægt er að hlaupa 3km (fjölskylduhlaup), 5km og 10 km, og leggja Flensborgarar að þessu sinni lóð á vogarskálar Pieta samtakanna. Það væri gaman að sjá sem flesta nemendur og aðstandur þeirra í hlaupinu, hægt er að skrá sig á hlaup.is og þannig leggja sitt af mörkunum.

 

Hér má sjá bréf sem skólameistari sendi nemendum og forráðamönnum í dag.