Fullt hús í Bæjarbrú

Það var líf og fjör í Flensborgarskólanum í dag þegar Bæjarbrúin fór formlega af stað þetta skólaárið. Bæjarbrúin er samstarfsverkefni Flensborgarskólans og grunnskóla Hafnarfjarðarbæjar, þar sem afburðanemendum í ensku og stærðfræði gefst kostur á því að spreyta sig á framhaldsskólaáföngum í fögunum tveimur. Alls munu 79 grunnskólanemendur stunda nám við Flensborgarskólann nú á haustönn, þar af eru 42 skráðir í ensku og 53 í stærðfræði. Bæjarbrúin í sinni núverandi mynd hefur verið starfrækt frá árinu 2015 og er dýrmætt tækifæri fyrir öfluga grunnskólanemendur til að vinna sér í haginn fyrir komandi nám á framhaldsskólastigi.