Gulleplið - bein útsending

Árlega veitir embætti landlæknis verðlaunin Gulleplið fyrir framúrskarandi heilsueflingarstarf í framhaldsskólum. Verðlaunin eru veitt þeim skóla sem skarar framúr í fyrirfram ákveðnum þætti og í ár var lögð áhersla á skólatengsl. Með skólatengslum er átt við tengsl nemenda við aðra nemendur og starfsfólk skólans.
Stýrihópur Heilsueflandi framhaldsskóla  metur umsóknir fyrir Gulleplið 2020 og velur þann skóla sem skarar framúr.

Ánægjulegt er hve margar  umsóknir bárust í ár og því ljóst að margir framhaldsskólar eru að gera góða hluti til að styðja við jákvæð skólatengsl nemenda sinna. Einnig verða veitt heiðursverðlaun í tilefni þess að 10 ár eru liðin frá því að fyrsti skólinn tók þátt í Heilsueflandi framhaldsskóla. Verðlaunin verða veitt í beinni útsendingu í streymi í dag kl. 15:30.