Hænur, hundar og hringdans

Nú eru ferðalangarnir, sem tóku þátt í Erasmus-viku í Rúmeníu, komnir heim. Þar tóku þeir þátt í verkefni um líffjölbreytileika ásamt fleiri þjóðum. Fulltrúar Flensborgarskólans voru þau Andri Freyr, Ásthildur Emelía, Elísabet Anna, Ísak Leví, Stella Hrund og Viktor Leví. Þau voru virkilega verðugir fulltrúar og framkoma þeirra var alls staðar til fyrirmyndar. Einlægni þeirra og jákvætt viðhorf vakti sérlega athygli. Hólmfríður og Ásrún, Flensborgarkennarar, fylgdu hópnum. Þær sögðu að gestgjafarnir hefðu tekið einstaklega vel á móti þeim.

Dvalið var í borginni Borsa umkringdum Maramures fjöllunum í ægifögrum haustlitum. Auk þess að kynnast náttúrunni og þjóðgörðunum, Maramures Mountains Natural Park, sem umkringja Borsa, voru heimsminjar skoðaðar og áhugaverð menning. Þar bar hæst „Gogu's House“, Sighet Village og The Merry Cemetery from Săpânța og Peri-Săpânța  Monastery sem er hæsta trékirkja Evrópu. Farið var í lestarferð með Mocănița um Vaser Valley en það er eina járnbrautarlest heimsins sem flytur bæði farþega og timbur í gegnum skóginn.

Það sem stendur upp úr að sögn ferðalanganna er einstök lykt, menning, matur, hænur, hundar og hringdans. Markmiðið með Erasmus+ er alltaf að skapa tengsl milli þátttakenda sem tókst svo sannarlega í þessari ferð. Sjá má fleiri myndir á Facebook-síðu skólans.